„Yfirforingi breska setuliðsins á Íslandi tilkynnir að hann hafi verið knúður til að láta flytja neðangreint fólk úr landi til Bretlands, þar sem það verður haft í haldi, fyrir að hafa veitt óvina flóttamanninum August Lehrmann virka aðstoð; hinir þrír fyrstu eru þýskir ríkisborgarar en hinir fjórir íslenskir ríkisborgarar: Frú Häsler, Ísafirði. Ungfrú Häsler Ísafirði, Frú Scheiter, Reykjavík, Jóhann Eyfirðingur, Tryggvi Jóakimsson, Frú Jóakimsson Ísafirði og Þorbergur Þorbergsson.“
Þannig hófst tilkynning frá yfirstjórn breska setuliðsins á Íslandi 9. júní 1941 daginn eftir að þetta fólk hafði verið handtekið af breskum hermönnum á Ísafirði og Þorbergur vitavörður á Galtarvita í Keflavík tekinn þar um miðja nótt og fluttur frá börnum sínum yfir í breskt herskip. Þau sátu í fangelsi í tvo mánuði í Bretlandi en látin laus til að liðka fyrir herverndarsamningi við Bandaríkjamenn um sumarið. Heimildarmyndin eftir kvikmyndagerðarmanninn Helga Felixson, Njósnir, Lygar og fjölskyldubönd fjallar um handtöku þessa fólks aðfaranótt 8. júní 1941. Myndin verður frumsýnd á fimmtudaginn í Bíó Paradís
Fólk kom út af sjómannadagsballinu. Systir mín átti heima þarna í Brunngötunni í þriðja húsi frá. Hún sá þetta allt. Vaknaði við þessi læti úti.
Segir Herdís Albertsdóttir sem var rétt rúmlega þrítug þegar þetta gerðist og rifjar upp þennan atburð í myndinni. Atburð sem fór ekki framhjá Ísfirðingum þegar breskir hermenn voru skyndilega mætti gráir fyrir járnum til að handtaka fólkið, hvert af öðru. Afi og amma Helga voru í þessum hópi Tryggvi Jóakimsson og Margrét Häsler sem var frá Þýskalandi.
Aldrei rætt innan fjölskyldunnar
Helgi segir að leyndarmál innan fjölskyldunnar og hulan sem hvíldi alla tíð yfir þessu málið hafi ýtt honum út í að gera myndina. Leynd hvíldi yfir þessum atburðum innan fjölskyldunnar og málið var aldrei rætt
„Afi var mjög virtur maður á Ísafirði og mikill athafnamaður. Fyrir hann var þetta rosalega mikið áfall. Þessu fylgdi mikil skömm sem við sem á eftir komum höfum fengið að erfa. Sú skömm hefur brotist út í þessar þöggun. Þetta var ekki rætt," segir Helgi Felixson.
August Lehrmann Þjóðverjinn, sem fólkið á Ísafirði og vitavörðurinn á Galtarvita voru sökuð um að aðstoða hér á landi, kom til Íslands 1939 hálfum mánuði áður en Þjóðverjar réðust inn í Pólland og síðari heimsstyrjöldin skall á. Hann kom fyrir atbeina þýsks heildsala sem hér starfaði, Heiny Scheiter. Scheiter þessi kvæntist Sigurlaugu Jóhannsdóttur sem var dóttir Jóhanns Eyfirðings á Ísafirði. Lehrmann þá nýkominn til Ísland var svaramaður Scheiters þegar hann gekk að eiga Sigurlaugu á Ísafirði. Það skýrir þá ákvörðun Lehermanns að fara til Ísafjarðar og leita ásjár hjá Jóhanni Eyfirðingi.
Í felum í eitt ár
Þegar Bretar hertóku Ísland 10. maí 1940 var Lehrmann í tjaldútilegu á Þingvöllum. Honum barst til eyrna að Bretar hefðu þegar tilkynnt að allir þýskir karlmenn yrðu handteknir. Í stað þess að fara aftur til Reykjavíkur tók hann þá ákvörðun að arka fótgangandi vestur til Ísafjarðar. Til að gera langa sögu stutta þá útvegaði Jóhann Eyfirðingur honum húsaskjól í sumarbústað í Súgandafirði þar sem sem Lehermann dvaldi um hríð. Síðan var honum komið fyrir í Furufirði og loks á Galtarvita hjá Þorbergi Þorbergssyni. Þaðan fór Lehrmann yfir á suðurfirðina og var loks handtekinn þar af Bretum. Þá hafði hann verið í felum í um eitt ár fyrir vestan. Í heimildarmyndinni fjallar Helgi fyrst og fremst um fjölskyldurnar sem voru handteknar og flókin tengsl þeirra á milli. Hann varpar ljósi á það hvers vegna afi hans og amma, sem virðast ekki hafa veitt Lehermann neina aðstoð voru handtekin og spyr líka hvers vegna aðrir voru ekki handteknir. Hann tengir líka atburðinn við það þegar flaggskip Þjóðverja Bismarck sökkti Hood flaggskipi Breta í maí 1941 vestur af Reykjanesi. Bismarck hafði laumað sér norður fyrir land og siglt í gegnum yfirráðasvæði Breta. Siglt úti fyrir Vestfjörðum þar sem Lehrmann var á þvælingi og hafði verið handtekinn nokkrum dögum áður en Hood var sökkt og 1300 manns fórust. Helgi veltir því fyrir sér hvaða áhrif þessi mikli missir Breta hafði á yfirheyrslurnar yfir Lehrmann í fangelsinu á Kirkjusandi í Reykjavík.
„Hann hafði verið látinn leika lausum hala þarna fyrir vestan í eitt ár án þess að þeir væru að skipta sér nokkuð af honum. Nú veit maður að yfirheyrslur geta verið mjög ofbeldishneigðar. Og þegar Bretar á Íslandi missa andlitið er eðlilegt að spyrja sig hvaða áhrif það hefur á yfirheyrslur yfir Lehrmann grunaður njósnari er handtekinn á nákvæmlega sama tíma og þeim stað þar sem Bismarck komst suður eftir til að sökkva Hood," segir Helgi
Var hann njósnari?
En hver var August Lehrmann? Hann kom hingað til að starfa hjá þýska heildsalanum Heiny Scheiter sem var jafnframt erindreki Norræna félagsins á Íslandi sem var í raun stofnun nasista sem sinnti áróðri á Norðurlöndunum.
Var hann aðeins meinlaus lærlingur hjá þýskri heildsölu eða leynilegur útsendari nasista á Íslandi?
Spyr Helgi í myndinni sinni.
Þó að hann hafi einhvern tíma verið gerður út sem njósnari. Þá hefur hann ekki getað stundað það. Því að ekki hafði hann tæki, ekki einu sinni myndavél.
Segir Árni Jónsson sem dvaldi með Lehrmann á Gilsbrekku í Súgandafirði. Finnbogi Hermannsson fjallaði ítarlega um þessa atburði í tveimur útvarpsþáttum 1995, Huldumaður á Vestfjörðum. Hann ræddi þá meðal annars við Ragnar Þorbergsson son Þorbergs vitavarðar.
„Ég er ennþá vissum að þessi maður var fyrst og fremst að forðast að hann yrði tekinn."