Skólp og túristar hættulegri en innflutt kjöt

20.07.2017 - 17:46
Hráir kjötbitar í matvörubúð.
 Mynd: Koos Schwaneberg  -  Freeimages
Skólp og frárennsli er einn helsti skaðvaldurinn varðandi útbreiðslu lyfjaþolinna baktería, sérstaklega skólp frá spítölum. Þá virðist aukinn fjöldi fólks sem ferðast til og frá landinu líklegri til að hafa áhrif á útbreiðslu lyfjaþols en innflutningur á matvælum.

Þetta kemur fram í skýrslu sem unnin var fyrir Félag atvinnurekenda. Markmiðið var að fá óháð vísindalegt mat á mögulegum áhrifum þess fyrir lýðheilsu og heilbrigði dýra á Íslandi ef aflétt yrði banni á innflutningi á fersku kjöti, eggjum og mjólkurvörum úr ógerilsneyddri mjólk. 

Í skýrslunni er bent á að Eftirlitsstofnun EFTA telji að innflutningsbönnin brjóti gegn EES-samningnum og séu ekki byggð á vísindalegum rökum. Þá hafi EFTA-dómstóllinn og Héraðsdómur Reykjavíkur komist að þeirri niðurstöðu að bann við innflutningi á fersku kjöti fari í bága við EES-samninginn.

Ein af helstu mótrökum gegn því að heimila eigi innflutninginn eru þau að innflutningur á ferskum matvælum geti valdið aukinni útbreiðslu baktería og sýklalyfjaónæmra baktería. Í svari Þorgerðar Gunnarsdóttur landbúnaðarráðherra á Alþingi í maí, við fyrirspurn um innflutning á hráu kjöti,  kemur fram að sóttvarnarlæknir hafi vakið athygli á þessari hættu. Hins vegar sé hættan ekki bundin við hráar kjötafurðir. „Fjölónæmar bakteríur geta ekki síður fundist í innfluttu grænmeti,“ segir í svari landbúnaðarráðherra. „Raunar er mesta hættan talin vera af einstaklingum sem bera þessar bakteríur til landsins frá útlöndum,“ segir jafnframt. 

Rannsóknir bendi til lítils samhengis

Niðurstöður skýrslunnar eru á sama veg. Þar segir að þó svo að matvæli eigi einhvern hlut að máli varðandi útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería sé enn margt óljóst um hvernig lyfjaónæmi dreifist. „Nýlegar rannsóknir í Danmörku og Hollandi benda þó til að lítið samhengi sé á milli lyfjaþolinna baktería í fólki og þeirra sem finnast í matvælum,“ segir í skýrslunni.

Þar segir að allar helstu alþjóðastofnanir benda á að fyrirbyggjandi aðgerðir séu skilvirkasta leiðin til að hamla útbreiðslu lyfjaþolinna baktería. Þær séu helstar að tryggja rétta notkun sýklalyfja bæði í heilbrigðiskerfinu og landbúnaði, meðal annars með því að koma í veg fyrir mengun frá stöðum þar sem vitað er að bakteríur geta sloppið út í umhverfið. „Skólp og frárennsli virðist þar vera helsti skaðvaldurinn, sérstaklega finnst mikið af lyfjaþolnum bakteríum í skólpi frá spítölum. Einnig er mikið magn efnaleifa í skólpi frá spítölum,“ segir í skýrslunni.

Meginniðurstaða skýrslunnar er að ekki séu haldbær rök fyrir því að innflutningur á ferskum eggjum, vörum úr ógerilsneyddri mjólk og fersku kjöti muni hafa neikvæð áhrif á lýðheilsu fólks og heilsufar dýra. „Ekki virðist heldur hægt að  fullyrða að innflutningur á þessum vörum muni hafa  áhrif  á útbreiðslu lyfjaþolinna baktería. Aukinn fjöldi fólks sem ferðast til og frá landinu virðist líklegri til að hafa áhrif á útbreiðslu lyfjaþols en innflutningur á matvælum,“ segir jafnframt.

Sérstaklega var litið til stöðunnar í Noregi þar sem ferskt kjöt, egg og mjólkurvörur úr ógerilsneyddri mjólk hafa verið flutt inn um árabil í samræmi við reglur EES. „Niðurstaðan er að frjálst flæði þessara vara hafi hvorki haft áhrif á lýðheilsu né dýraheilbrigði í Noregi,“ segir í skýrslunni.

Prófessor í sýklafræði ósammála niðurstöðum skýrslu

Í frétt á vef Bændablaðsins í dag er haft eftir Karli G. Kristinssyni, prófessor í sýklafræði við læknadeild Háskóla Íslands og yfirlækni sýklafræðideildar Landspítalans, að hann sé ósammála niðurstöðum skýrslunnar. Hann segir það ótvírætt að sýklar geti borist með matvælum. „Höfundar segja að það séu litlar upplýsingar um hvað þetta er stór þáttur og gera meira úr fjölgun ferðamanna eins og menn þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af því að sýklalyfjaónæmi berist með matvælum,“ segir Karl. „Það getur engin sagt nákvæmlega hver áhættan muni verða fyrir fram en það eru sterk rök fyrir því að hafa áhyggjur af auknum innflutningi,“ segir hann í fréttinni.

 

 

Sigríður Dögg Auðunsdóttir