Skógareldar brenna á Suður-Ítalíu

11.07.2017 - 16:01
Erlent · Evrópa · Ítalía
Á sjöunda hundrað slökkviliðsmenn og starfsmenn ítölsku almannavarnanna berjast við kjarr- og skógarelda sem brenna á að minnsta kosti hundrað stöðum í Capaniahéraði á Suður-Ítalíu. Eldar loga meðal annars í hlíðum eldfjallsins Vesúvíusar. Fólk sem býr í nágrenninu hefur verið flutt á brott, sem og ferðamenn.

Þetta er í annað sinn á einni viku sem fólk hefur þurft að flýja vegna elda í hlíðumn Vesúvíusar. Reykur frá eldunum nær uppi yfir tveggja kílómetra hæð. Hann má sjá frá borginni Napólí. Af myndum frá hinni fornu borg Pompeii mætti ætla að eldgos sé hafið í Vesúvíusi.

Kjarr- og skógareldar brenna víðar á Ítalíu þessi dægrin. Að sögn þarlendra fjölmiðla eru þeir á fjórða hundrað talsins. Sikiley hefur orðið illa úti að undanförnu. Þar hafa eldar logað á miðhlutanum og í grennd við borgina Messina á norðausturhlutanum.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV