Fimmtudagspistill Sigurbjargar Þrastardóttur í Víðsjá, 29. september 2016.


„Ég er alltaf að hitta Ghayath Almadhoun. Hann hefur búið í Stokkhólmi allra síðustu ár en hann er alls staðar þar sem ég kem, á bókamessunni í Gautaborg, bókmenntahátíð í Groeningen, í Berlín, bara nefndu það – hann er að lesa upp, hitta vini og gera það sem ungu skáldin í Evrópu gera, lifa lífinu.

Ghayath er með hressari mönnum sem maður hittir, alls staðar þar sem er partí, þar er hann. Og öfugt. „Hann er stór maður og vinalega eygður,“ sá ég einhvern tíma um hann ritað, „og hann er mögulega mesta skáld sinnar kynslóðar.“ Ég veit ekkert um það, ég get ekki lesið mig almennilega til í arabískumælandi skáldum undir fertugu, en það kæmi mér ekki á óvart – Ghayath er athugull og skarpur húmoristi, þar er ekki töluð vitleysan, og skógarbjarnarfaðmlagið hans er hlýlegt.

En það sem kemur mest á óvart er hrái veruleikinn sem fléttast inn í hversdagslegt viðmótið.

Við, sem fljúgum um loftið í flísum og rignum til jarðar eins og kjötstykki, við biðjum íbúa hins siðmenntaða heims alveg innilegrar afsökunar, hvern og einn einasta, menn, konur og börn, á því að dúkka svona upp á þeirra öruggu heimilum án leyfis. Við biðjumst afsökunar á því varanlega marki sem innyfli okkar hafa sett á drifhvítt minni þeirra, á því að skaða hugmynd þeirra um hina fullkomnu og heillegu manneskju. Blygðunarlaust höfum við stokkið lóðbeint inn í fréttatíma og skotið upp kollinum á vefsíðum og í dagblöðum, nakin, að frátöldu blóði okkar og brunnum líkamsleifum.

Ég get ekki haft eftir allt sem Ghayath hefur sagt mér í tveggja manna tali, því sumt af því hefur að gera með andspyrnuverk sem líklega er ekki gott að fréttist, því stríðunum í kringum hann er ekki lokið, en í stuttu máli er hann palestínskur að uppruna, fæddur í flóttamannabúðum í Damaskus, Sýrlandi, og menntaður í þeirri borg.

Fyrir nokkrum árum yfirgaf hann einræðisríkið sem Sýrland var að breytast í, hann fékk boð um að lesa á ljóðahátíð í Svíþjóð og sagði við skipuleggjendur: „Já, ég skal koma, en þá skuluð þið vita að ég fer ekki heim aftur.” Sænskir sögðu: „Ókei.” Og nú býr hann, yrkir og gerir stuttmyndir í Stokkhólmi, gjarnan í félagi við sænsku skáldkonuna Marie Silkeberg – saman hafa þau m.a. gefið út bókina Til Damaskus, sem menn þurfa að verða sér úti um.

Við biðjum alla þá afsökunar sem hafa ekki þorað að horfa beint í sár okkar af ótta við að fá velgju, og þá sem geta ekki klárað kvöldmatinn sinn eftir að hafa óvart séð ferskar myndir af okkur í sjónvarpinu. Við biðjumst forláts á þeim þjáningum sem við höfum valdið öllum þeim sem hafa séð okkur í þessu ástandi; ófegraðar flygsur og tætlur sem eru hvorki saumaðar saman né sópað upp áður en þær birtast á skjánum.

Þar síðast þegar ég hitti Ghayath sagði hann mér frá ítrekuðum tilraunum sínum til þess að koma bróður sínum til Svíþjóðar, út úr miðju Sýrlandsstríðinu, og það tókst eftir ótrúlegum krókaleiðum. En hann var uggandi um annan bróður sinn, sem hefur frá upphafi barist með sýrlensku andspyrnunni gegn hersveitum Assads forseta. Skömmu síðar las ég eftirfarandi, í grein eftir Hollendinginn Chris Keulemans:

„Ghayath Almadhoun var nýlega í Amsterdam, það var fyrsti sólardagur vorsins og hann hafði nýlokið þátttöku í pallborði um stríð og lýrík. (…) Öll ljóðlist er pólitísk, hafði hann sagt á sviðinu, fjalli hún um umhverfi sitt, hvort sem það eru sænskir skógar eða eyðilegging Damaskus. Eftir spjallið stóð hann í björtu fordyri bókasafnsins, umkringdur vinum. Ég var að spjalla vð einhvern, nokkra metra frá, og sneri baki. Allt í einu heyri ég bælda upphrópun, eins og þegar barn rekur hnéð í horn. Ég sný mér við og sé þennan stóra mann falla í gólfið, með farsíma við eyrað. Þögn fellur á fordyri bókasafnsins. Bróðir minn, snöktir hann, bróðir minn er dáinn.“

Það er þetta sem er einkennilegt við að hitta Ghayath Almadhoun í bókmenntaveislum í random löndum. Hann hefur misst, og heldur áfram að missa, ættingja og vini í blóðbaðinu í Sýrlandi, hann óttast um móður sína, hann þjáist af samviskubiti þess sem hefur flúið af vettvangi, hann á vin sem vinnur við að ljósmynda líkin sem hrannast upp í stríðinu; vinurinn hefur myndað tugþúsundir en hrekkur ennþá við ef hann þekkir hinn látna.

Hvað er hægt að segja við mann með svona farangur? Er best að vera hress og aðstoða hann við djammið, á maður að taka skref til baka og dást að æðruleysinu, eða finnast það skeytingarleysi, á maður að segja frá lögbrotunum sem hjálpa fólki að lifa af í borgarastríði, eða lýsa skilningsleysi sínu á hugtakinu lög við þær aðstæður? Á maður að spyrja hvernig líður þér, og sprengja þannig mögulega varnarbelginn?

Listmálarinn André Fougeron ákvað að þátttaka sín í spænska borgarastríðinu yrði áhrifaríkari með penslinum en með rifflinum, hann málaði m.a. verkið Espagne Martyre, Spánn píndur, sem Tate Modern varðveitir. Ég veit ekki hvort Ghayath Almadhoun tók meðvitað slíka ákvörðun – en hann lifir í gegnum skrif sín og sumir vakna þegar þeir lesa þau, þótt maður geti spurt sig, hvað þýðir fyrir okkur að vakna, í slíku samhengi?

Við biðjum ísraelsku hermennina einnig afsökunar, þá sem fengu það erfiða hlutskipti í flugvélum sínum og skriðdrekum að þrýsta á takkana sem sprengdu okkur í búta – við afsökum hvað við afmynduðumst hrikalega eftir að þeir miðuðu á okkar mjúku höfuð. Við afsökum allar stundirnar sem þeir þurfa nú að eyða á geðdeildum til þess að reyna að verða aftur manneskjurnar sem þeir voru áður en þeir umbreyttu okkur í óhuggulega líkamsparta sem ofsækja þá í svefni. Já, við erum þessir partar sem sjást á öllum skjám og í öllum miðlum og ef þið mynduð reyna að raða þeim saman, eins og púsluspili, mynduð þið fá skýra mynd af okkur, svo skýra að þið gætuð aldrei aðhafst neitt framar.*

*Skáletrað er ljóðið Við eftir Ghayath Almadhoun, SÞ snaraði.