Skáldsagan Kvika fjallar um það þegar Disneydyggðir mæta afleiðingum klámvæðingar. Höfundur bókarinnar er Þóra Hjörleifsdóttir. Hún segir að í verkinu hafi hún viljað skoða myrkar hliðar ástarinnar og ósýnilegt ofbeldi.

„Ef við hugsum um ástina eins og pening, þá er á annarri hliðinni þetta bjarta og góða og yndislega, það sem er spennandi. En á myrku hliðinni á peningnum er þessi kvíði, óöryggi og þráhyggja. Það var sú hlið sem ég tók að mér að kanna í þessari bók,“ segir Þóra Hjörleifsdóttir um Kviku, sína fyrstu skáldsögu, í viðtali við Egil Helgason í Kiljunni.

Í bókinni kynnast lesendur ungri konu sem heitir Lilja. Hún kolfellur fyrir manni sem ljóst er að hún hefur ekki gott af að vera í sambandi með. Þóra segir bókina fjalla um ósýnilegt ofbeldi sem hafi ekki verið fjallað mikið um í íslenskum bókmenntum til þessa. „Þessi ósýnilega kúgun sem hægt og rólega veldur því að fæturnir molna undan henni.“

„Lilja fer út í lífið með þessar þrjár höfuðdyggðir sem að stúlkum er kennt: að vera dugleg, þæg og góð. Hún fer eftir því í þessu sambandi og reynir að reynast honum vel, vera góð við hann og leggja meira á sig til þess að þetta gangi upp. Hún lítur svo á að það sé í hennar verkahring að lappa upp á þetta. Hún hefur ekkert vald til að skilgreina þetta samband. Hún bíður alltaf eftir að hann gefi „gó“ á að nú séu þau kærustupar og allt verði gott.“

Maðurinn heldur fram hjá henni og reynir markvisst á þau mörk sem Lilja setur sér í kynlífi. „Fyrir nokkrum árum las ég grein um það hvernig ungar stúlkur upplifa kynlíf. Þá töluðu þær um að ef það er ekki vont þá er það allt í lagi. Lilja er á þessum stað; ef þetta er ekki líkamlega sárt þá get ég látið þetta yfir mig ganga,“ segir Þóra.

„Þetta er það sem að gerist þegar stúlkur sem hafa horft á Fríðu og dýrið og rómantískar gamanmyndir, þar sem konan trúir því að hún geti elskað manninn í lag. Þegar hún mætir manni sem að hefur horft á klám síðan hann var lítill drengur að þá skella heimarnir saman.“

Þóra fjallar í verkinu á bersöglan hátt um viðhorf ungs fólks, sem hefur orðið fyrir áhrifum klámvæðingar, til kynlífs. „Áður en bókin kom út var ég mjög hrædd um að allir myndu halda að ég væri pervert,“ segir hún. „Miðað við hvað þetta er stutt bók þá er hlutfallslega mikið af kynlífslýsingum sem eru groddalegar og óþægilegar á köflum. Ég var að skoða hvernig hægt er að nota kynlíf sem valdbeitingu.“