Skilti um lægri hámarkshraða á brúnni yfir Núpsvötn voru fjarlægð í síðustu viku og ökumenn keyra þar alltof hratt. Þetta segir varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi. Vegagerðin fjarlægði skiltin í síðustu viku en stefnt var að því að setja þau upp að nýju í dag. Oddviti Skaftárhrepps segir ekki hægt að sætta sig við að brúin hafi ekki verið löguð eftir hörmulegt banaslys í desember.

Banaslys varð við brúna yfir Núpsvötn 27. desember síðastliðinn. Jeppi, sem í voru sjö erlendir ferðamenn, fór þá fram af brúnni, með þeim afleiðingum að þrír létust, þar á meðal ellefu mánaða gamalt barn. Eftir slysið skapaðist mikil umræða um öryggismál í umferðinni á Suðurlandi.

Skömmu eftir slysið ákvað Vegagerðin að lækka hámarkshraða við flestar einbreiðar brýr á landinu úr níutíu kílómetrum á klukkustund í fimmtíu kílómetra á klukkustund. Við Núpsvötn voru settar upp bráðabirgðamerkingar því til staðfestingar. Þær merkingar voru fjarlægðar og því hafa fjölmargir ökumenn keyrt yfir brúna á minnst níutíu kílómetra hraða.

„Það var þannig að hraðinn var tekinn niður hérna til skamms tíma, niður í fimmtíu kílómetra á klukkustund. En þær merkingar sem voru til bráðabirgða eru ekki hérna lengur. Þannig að hraðinn er ekki tekinn niður eins og er,“ segir Þorsteinn M. Kristinsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi.

Þannig að hámarkshraðinn er bara níutíu eins og var?

„Já já. Hann er það.“

Er of mikið að keyra yfir þessa brú á níutíu?

„Það er að mínu mati alltof mikið.“

Vitið þið hvers vegna þessar merkingar eru horfnar?

„Mér er ekki kunnugt um af hverju það er. Það er helst að tala við veghaldarann, af hverju þetta er svona.“

„Geigvænlegar niðurstöður“

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni voru skiltin tekin niður í síðustu viku af því að þau voru hætt að þjóna tilgangi sínum vegna ágangs veðurs, þau hafi verið orðin illa sandblásin og stoðir bognar. Eftir að fréttastofa fór að spyrjast fyrir um málið fengust þau svör að bráðabirgðaskilti yrðu sett upp að nýju í dag.

Þorsteinn segir að þótt hámarkshraði verði lækkaður sé brúin ekki nógu örugg, sérstaklega ef mið er tekið af hegðun fjölmargra ökumanna. „Hún er að mínu mati hættuleg,“ segir hann. „Það er keyrt gríðarlega hratt á þessu svæði. Ég get nefnt til dæmis að í hverri einustu viku er lögreglan á Suðurlandi og þessu svæði hér að stoppa ökumenn sem eru að keyra á hundrað og fimmtíu kílómetra hraða. Og á hverjum einasta degi erum við að stöðva bílstjóra sem eru að aka á yfir hundrað og tuttugu.“

Þá segir Þorsteinn það vera alltof algengt á meðal erlendra ferðamanna að nota ekki bílbelti.

Ólafur Guðmundsson, sérfræðingur í umferðaröryggismálum, átti fund sem forsvarsmönnum sveitarfélaga á svæðinu í síðustu viku, þar sem hann lýsti meðal annars miklum áhyggjum af stöðunni við Núpsvötn.

„Þar komu fram geigvænlegar niðurstöður,“ segir Eva Björk Harðardóttir, oddviti Skaftárhrepps. „Við sjáum að skilti eru horfin. Í raun er þetta eins ótraust og það getur verið. Það eru bil á milli þar sem eru vegrið, og illa fest. Í kjölfarið á svona hræðilegu slysi eru þetta óásættanleg vinnubrögð.“

Þorsteinn óttast hið versta við Núpsvötn. „Ég gæti ekki hugsað mér að fá stóra bíla eða hópbifreiðar fram af þessari brú. Ég hugsa ekki þá hugsun til enda.“