Það skekkir samkeppni flugfélaga á Íslandi að Isavia veiti WOW air mikið svigrúm til að greiða skuldir vegna gjalda á Keflavíkurflugvelli. Þetta segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

Bogi Nils var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun og var hann spurður út í stöðuna á íslenskum flugmarkaði og í ferðaþjónustu hér á landi.

Um rekstarvandræði og harða samkeppni við lággjaldaflugfélagið WOW air sagði hann: „Auðvitað hefur þetta áhrif á okkur þegar við erum að keppa við félög sem selja flugsæti langt undir kostnaðarverði eins og við erum að sjá. Miðað við þær fréttir sem berast af félaginu [WOW air] þá þurfa kröfuhafar að taka á sig verulegt högg.“

Bogi á þarna við ógreidd lendingagjöld WOW air á Keflavíkurflugvelli sem fjallað hefur verið um í frétt. „Þetta virðist gert með stuðningi opinberra aðila, sem virðast vera að fjármagna ósjálfbæran rekstur,“ segir Bogi. „Það er að mínu mati mjög slæmt og skekkir samkeppnisstöðu í flugi til og frá landinu. Svo að sjálfsögðu hefur þetta áhrif á okkur.“

„Eins og kom fram fyrir áramót þá skrifuðum við undir samning um kaup á WOW air en eftir að hafa skoðað félagið vel þá gekk það ekki upp og við ákváðum að fara út úr því. Það var bara of mikil áhætta og ýmsar forsendur sem ekki var hægt að uppfylla.“

Aðspurður hvort það gæti komið til þess að ríkið þyrfti að grípa inn í rekstur flugfélaganna, og þá sérstaklega WOW, segir Bogi að það geti ekki gerst. „Það finnst mér alveg útilokað vegna þess að það eru rúmlega 25 flugfélög að fljúga til landsins. Til lengri tíma mundi það alltaf hafa neikvæð áhrif að skekkja samkeppnisstöðu með þessum hætti.“

Bogi segir hins vegar að enn séu tækifæri í íslenskri ferðaþjónustu. „Til lengri tíma jafnast þetta allt saman út ef tækifærin eru til staðar,“ segir hann og bendir á að hingað til lands fljúgi á bilinu 20-30 flugfélög allan ársins hring. „Við viljum ekki selja sæti undir kostnaðarverði. Ýmislegt sem hefur verið í gangi hefur ekki verið sjálfbært.“