Skatturinn skoðar gögn um fjárfestingaleiðina

18.05.2017 - 20:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bæði Ríkisskattstjóri og skattrannsóknarstjóri eru með gögn um þá sem nýttu sér fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands. Embættin óskuðu eftir þessum upplýsingum á síðasta ári. 206 milljarðar voru fluttir til landsins í gegnum þessa leið sem hefur þótt umdeild.

Einar Brynjólfsson, þingflokksformaður Pírata, lagði fram þingsályktunartillögu í lok febrúar um að skipa ætti rannsóknarnefnd til að skoða fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands.

Samkvæmt tillögunni átti rannsóknarnefndin að gera grein fyrir fjármagninu sem flutt hefði verið til landsins gegnum þessa leið, hvaðan fjármagnið hefði komið, hverjir hefðu verið skráðir fyrir því, hvernig þessum peningum hefði verið varið og hvort ríkissjóður hefði orðið af skatttekjum. Í greinargerð með tillögunni kom fram að 206 milljarðar hefðu verið fluttir til landsins í gegnum þessa fjárfestingaleið og að gagnrýni á hana hefði verið hávær.

Þessi gagnrýni hafi síðan fengið byr undir báða vængi þegar skýrsla fjármála-og efnahagsráðuneytisins um eignir Íslendinga á aflandssvæðum kom út. Þar hefði komið fram að: „miðlun upplýsinga um fjármagnsflæði inn og út úr landinu, t.d. aflandskrónur sem fluttar hafa verið til landsins og eins þátttaka í fjárfestingarleið Seðlabankans er ekki til staðar. Sér í lagi hefur skattyfirvöldum ekki verið gert viðvart af hálfu Seðlabankans þegar um grunsamlegar fjármagnstilfærslur er að ræða.“ 

Í umsögn Seðlabanka Íslands við tillöguna segir að Seðlabanki Íslands hafi gert rækilega grein fyrir öllum þáttum áætlunarinnar um losun fjármagnshafta. Framkvæmdin hafi gengið vel, verið skipulögð, gagnsæ og upplýsingar verið veittar um hana.  

Þá segir bankinn að með vísan til þess sem segir í greinargerð tillögunnar, um að skattyfirvöldum hafi ekki verið gert viðvart þegar grunsamlegar fjármagnsfærslur voru gerðar, að bæði Ríkisskattstjóri og Skattrannsóknarstjóri hafi verið veittar upplýsingar um þátttakendur í fjárfestingaleiðinni. Embættin tvö hafi óskað eftir þessum gögnum.

Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, sagðist í samtali við fréttastofu ekki getað tjáð sig um hvar vinnan með þessi gögn væri stödd né hvort einhverjum málum hefði verið vísað til ákæruvalds vegna gruns um skattsvik. 

Í umsögn Bryndísar Kristjánsdóttur, skattrannsóknarstjóra, segir hún að greining og frekari úrvinnsla þessar gagna kunni að leiða til frekari aðgerða af hálfu embættisins „vakni grunur um skattaundandskot í tengslum við nefnda leið.“

 

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV