Hugmyndir Alþýðusambandsins um fjölgun skattþrepa gætu reynst skaðlegar segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Ríkisstjórnin ætlar að leggja fram nýjar skattatillögur á næstu dögum.

Alþýðusambandið kynnti í fyrradag óskir sínar um breytingar á tekjuskatti. Sambandið vill að skattþrepum verði fjölgað í fjögur og efsta þrepið verði hátekjuskattur. Þá er hvatt til þess að skattleysismörk verði hækkuð með hækkun persónuafsláttar. Þetta eigi að nýtast fólki með minna en hálfa milljón króna í mánaðartekjur.

„Það sem ég hef kannski helst við tillögurnar að athuga er þær munu leiða til hærri skatta strax og meðaltekjum er náð, sé ég að skilja tillögurnar rétt. Ég er almennt á móti breytingum á skattkerfinu sem auka jaðarskatta,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

Það sé unnt að bæta hag lágtekjuhópa með öðrum aðgerðum.

„Og við getum gert það án þess að þurfa að hækka skatta á meðaltekjumanninn og þá sem liggja rétt ofan við meðaltekjur. Það mun auðvitað ekki skila jafn mikilli lækkun til þeirra sem eru á lægstum launum en það held ég samt sem áður að sé betri breyting á skattkerfinu. Við höfum verið að hlusta eftir sjónarmiðum stéttarfélaganna við okkar breytingar. Sú vinna sem við höfum unnið núna í bráðum heilt ár verður kynnt á næstu dögum,“ segir Bjarni.

En má ekki skattleggja hátekjufólk meira heldur en nú er?

„Hátekjufólk þ.e.a.s. allir sem eru yfir 900 þúsund krónum í dag erum komnir í skattþrep sem er rúm 46% og það tel ég vera hátekjuskattþrep. Og ég tel að það geti verið skaðlegt ef menn ganga of langt í að hækka þessar prósentur,“ segir Bjarni.

Hann er efins um ágæti þeirrar aðgerðar að hækka persónuafsláttinn. 

„Hún tryggir jafna krónutölu til allra og það skilar sér þannig hlutfallslega best til þeirra sem hafa minnst en það er á sama tíma gríðarlega dýr aðgerði og þess vegna smyrst þetta mjög þunnt yfir ef menn fara leið hækkunar persónuafsláttar. Við erum að skoða leiðir sem væru skilvirkari sem myndu skila meiru fyrir lágtekjufólk en einföld hækkun persónuafsláttar,“ segir Bjarni.

Hvaða leiðir eru það?

„Það er það sem við erum að leggja lokahönd á og munum kynna fyrir aðilum vinnumarkaðarins á næstunni,“ segir Bjarni.

Hann segir ekki unnt að greina frá tillögunum að svo stöddu.