Skattar verða lækkaðir á næsta ári, auk þess sem vörugjöld verða felld niður. Þetta segir fjármálaráðherra. Forsætisráðherra hafði áður sagt nauðsynlegt að hægja á skattalækkunum.

Ýmislegt bendir til þess að þensla fari vaxandi í efnahagslífinu um þessar mundir. Forsætisráðherra hefur lýst því yfir að skammt sé síðan hagkerfið hafi þurft innspýtingu, og nú sjáist árangur af því. „Hann er það mikill að menn þurfa kannski að fara að stíga svolítið á bremsuna og hluti af því er auðvitað að lækka skatta hægar en ella hefði verið hægt,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nýverið. 

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir hins vegar, að ekki verði hægt á skattalækkunum. „Það er skýr stefna ríkisstjórnarinnar að vinna að skattalækkunum. Og við höfum nú þegar kynnt til sögunnar skattalækkanir sem hafa tekið gildi. Sumar munu taka gildi á næsta ári, meðal annars vegna þess að tímabundnir skattar eru að renna út, en líka vegna þess að fyrri aðgerðir okkar voru að koma í framkvæmd í áföngum. Ég nefni til dæmis að tryggingagjaldið heldur áfram að lækka á næsta ári. Þannig að skattar munu lækka á næsta ári, jafnvel þótt við myndum engum lagabreytingum koma í gegn í haust. Það er bara afleiðing af þeirri stefnumörkun sem þegar hefur verið tekin.“

Hann segist þrátt fyrir það sammála þeim sem tala fyrir því að efnahagsaðgerðir þurfi að rúmast í því ástandi sem ríkir í efnahagsmálum hverju sinni. „En það liggur nú þegar fyrir að skattar eru að fara að lækka á næsta ári auk þess sem við erum að vinna að því að fella niður vörugjöld,“ segir hann.