Stan Lee myndasagnahöfundur féll frá í vikunni, 95 ára að aldri. Hann skapaði nýja goðafræði innan myndasöguheimsins, segir Hugleikur Dagsson og hafði einstaklega gott lag á að skapa ofurmannlegar hetjur sem lesendur gátu speglað sig og eigið samfélag í.
Meðal ofurhetja sem Stan Lee skapaði, í samstarfi við hina ýmsu teiknara, þá einkum Jack Kirby og Steve Ditko, eru Spider-Man, Hulk, X-Men, Fantastic Four og Daredevil.
Allt eru þetta hetjur sem flestir ættu að þekkja, án þess að hafa helgað sig sérstaklega lestri myndasagna. Það er einkum flóði kvikmynda síðustu ára sem byggjast á ofurhetjumyndasögum að þakka. Upphaf bylgjunnar má rekja til kvikmynda sem studdust við sköpunarverk Stan Lee. „Ég hugsa að þetta ofurhetjuvor svokallaða hafi byrjað með fyrstu X-men myndinni og svo farið almennilega í gang með fyrstu Spider-Man myndinni á þessari öld,“ segir Hugleikur Dagsson myndasagnahöfundur í viðtali í Lestinni á Rás 1.
Stan Lee hóf störf hjá útgáfufyrirtæki árið 1939, sem þá hét Timely Comics en þróaðist síðar í myndasagnarisann Marvel Comics. Eftir tæpa tvo áratugi í starfi fór að gæta starfsleiða hjá Lee og hann íhugaði að sögn að hætta afskiptum af myndasagnagerð. Eiginkona hans, Joan B. Lee, fékk hann ofan af því og stakk upp á að hann gerði tilraunir með sögur sem hann vildi sjálfur skrifa, hann hefði hvort eð er engu að tapa, og til varð ofurhetjuteymið The Fantastic Four.
„Það sem gerði þau öðruvísi en aðrar ofurhetjur er að þær voru breyskar, þær höfðu sína galla,“ segir Hugleikur. „The Human Torch var monthani. The Thing var ljótur og kvalinn einstaklingur. Mr. Fantastic, foringinn, var bókstaflega sveigjanlegur og gáfaður, en hann hunsaði fjölskylduna vegna þess að hann var alltaf á skrifstofunni. Fyrir vikið var fjölskyldumóðirin ekki heldur á staðnum, Invisible Girl, sem var bókstaflega ósýnileg.“
Næst gerði Stan Lee Spider-Man sem talaði enn betur til lesendahópsins, sem samanstóð að mestu af unglingsstrákum. „Allt í einu var komin ofurhetja sem var líka feiminn unglingsstrákur, strákur sem var jafnvel lagður í einelti, strákur sem átti erfitt fjölskyldulíf. Jafnvel þegar hann var hetja þá var hann hataður af fjölmiðlum. Það er eitthvað sem hafði ekki sést mikið í ofurhetjumyndasögum, að umhverfið var svona mikið á móti þeim.“
Stan Lee skrifaði seinna The X-men ásamt Jack Kirby. „Þá var hann kominn upp á lagið með að láta þessar hetjur lifa í einhvers konar sársauka, hann gerði þær breyskar og þar af leiðandi fékk þessi nýja ofurfjölskylda eitthvað sem DC [annar tveggja útgáfurisa í Bandaríkjunum] hafði ekki. Þessa persónugalla sem töluðu til fólks, bara eins og grískar goðsagnir þar sem allir eru meingallaðir líka.“
Á þessum tíma er mikil ólga í Bandaríkjunum, réttindabarátta svartra og uppgangur femínisma. „Það var þar sem X-men kom inn, vegna þess að þar voru hetjur sem að voru minnihlutahópur og voru að berjast fyrir réttindum sínum. Þær voru að hjálpa heimi sem hataði þau. Það var eitthvað sem talaði til allra minnihlutahópa. Í gegnum tíðina hefur X-men verið notuð sem líkingasaga um réttindabaráttu. Á seinni hluta síðusta aldar voru þær ein stór myndlíking fyrir samkynhneigða og í upphafi þessarar aldar fyrir múslima.“
Hugleikur segir að Stan Lee hafi haft áhrif á hans eigin list. „Ég ætlaði alltaf að gera ofurhetjumyndasögur áður en ég fór út í spýtukarlana,“ segir hann. „Þegar ég var lítill skapaði ég heilu liðin af ofurhetjum. Þar voru augljós áhrif frá Spider-Man.“ Á fullorðinsárum hefur Hugleikur tekið sér til fyrirmyndar ákveðna frásagnartækni sem Stan Lee beitti.
„Á tímabili skrifaði hann örugglega tíu titla fyrir Marvel vegna þess að útgefendurnir voru örugglega búnir að fatta að hér voru þeir með mann sem var eins og Mídas – allt sem hann snerti varð að gulli. Það gerði það að verkum að hann hætti að fullskrifa handrit. Í staðinn skilaði hann lauslegum söguþræði til teiknara, þeir teiknuðu það upp eftir eigin hentisemi, skipuðu römmum niður á síðu og svo kom Stan Lee og fyllti í það með talblöðrum.“
Með því varð til ákveðinn samruni tveggja frásagnaforma, hins teiknaða og hins skrifaða. Hugleikur segir að hann hafi tamið sér þetta í samstarfi við aðra teiknara. „Það er mjög gaman að láta teiknarana hafa eins mikið frelsi og mögulegt er í þessu samstarfi vegna þess að þá verður starf höfundar auðveldara og nýir hlutir fæðast. Það er held ég eitthvað sem má ekki gleyma í sambandi við Stan Lee, að hann gaf teiknurum mjög mikið frelsi. Þannig að það sem við sjáum frá honum er ekki allt hann – heldur hann að leyfa öðrum að komast að.“