Reykjavíkurmyndir er heiti nýs ljóðaúrvals með ljóðum Óskars Árna Óskarssonar. Ljóðin eiga það flest sameiginlegt að vera ort á strætum Reykjavíkurborgar, hvar Óskar arkar jafnan um inn á milli hlandporta og horfir þess á milli til himintungla.

Óskar Árni Óskarsson fæddist í Reykjavík um miðja síðustu öld og ólst upp í Þingholtunum. Hann sendi frá sér sína fyrstu ljóðabók, Handklæði í gluggakistunni, árið 1986. Reykjavíkurmyndir er safn uppstokkaðra, eldri ljóða sem tengjast Reykjavík og mynda saman eina nýja heild. „Já, þetta er úrval úr ljóðum sem tengjast Reykjavík á einn eða annan hátt og ljóð sem ég hef valið sjálfur, með aðstoð vina minna, skáldbræðra og sett í nýja bók. Þau eru ekki í tímaröð eins og venja er þegar svona söfn koma út, heldur hef ég stokkað þau upp og búið til nýja kafla. Í munum huga á þetta að vera ný bók ekki bara gamalt úrval af ljóðum,“ segir Óskar Árni.

Óskar Árni á það til að sækja sín hugðarefni víðs vegar um borgina þó segir hann það ekki endilega alltaf augljóst að ljóðin hans endurspegli ferðalög hans. „Í raun og veru er það þannig að þau tengjast borginni, þó það sé ekki endilega nefnd einhver gata eða staður sem er þó reyndar oft gert. Ég er dálítið upptekinn af ýmsum stöðum, ferðalögum og götum. Ég sæki oft ljóð í kringum einhverja ákveðna staði,“ segir Óskar.

Reykjavíkurskáld

„Ég hef nú verið kallaður svo mörgum nöfnum sem skáld; bakhúsaskáld, fiðrildaskáld og Reykjavíkurskáld er ekkert verra en annað. Vissulega má líta á mig sem Reykjavíkurskáld enda fæddur og uppalinn hér í Reykjavík og hef verið allan minn tíma mest hér í Reykjavík,“ segir Óskar og telur að flest ljóðanna verði til á göngutúrum um borgina. Þar kvikna þessar Reykjavíkurmyndir. „Hugurinn tekur einhverjar myndir sem framkallast stundum seinna, stundum löngu seinna og annað máist út. Borgin er óþrjótandi uppspretta af skáldskap og gatan sem þú gengur er aldrei sama gatan. Nýtt og nýtt efni verður til. Svo byggist auðvitað allur skáldskapur á öðrum eldri skáldskap, það eru auðvitað mörg lög af Reykjavíkurljóðum í þessarri borg, allt frá Tómasi og Steini alveg fram á þennan dag,“ segir Óskar Árni.

Í formála spyr vinur Óskars og einn skáldbræðra hans, Jón Kalman Stefánsson hvort ef Óskar væri tónlistarmaður … væri hann þá ekki munnhörpuleikari í blúshljómsveit, sem ætti það til að breytast í dreymna djasssveit? Einnig segir Jón Kalman Óskar vera skáld himintungla og hlandporta. „Ég verð bara að taka undir orð vinar míns, ég held að þetts sé að vissu leyti rétt. Ég góni svolítið mikið á stjörnurnar og er á rölti um bæinn og oft kíki ég inn í húsasund, inn í hlandport sem voru í gamla daga og eru kannski enn. Ég held að hann sé að vísa til þess. Þessara göngutúra minna um borgina,“ segir Reykjavíkurskáldið Óskar Árni Óskarsson.