Hvað er sterkast skærin, blaðið eða steinninn? Höfðupersónan og sá sem segir söguna sem ber þennan titill mundi ugglaust segja blaðið, enda hefur hann gott vit á vönduðum pappír.

Í skáldsögunni skæri blað steinn grandskoðar danska skáldkonan Naja Marie Aidt karlmanninn, styrk hans og veikleika. Lesandinn fylgir eftir hinum hálffertuga Thomas O´Mally Lindström í gegnum nokkrar hremmingar sem hefjast með andláti föður hans í fangelsi eða öllu heldur með því að hann finnur eitthvað í gamalli brauðrist föðurins sem mætti líta á sem arf eftir föðurinn og uppbót fyrir alla harðneskjuna sem Thomas og systir hans Jenny máttu þola sem börn.

Þessi fundur verður upphafið á mikilli atburðarás sem Thomas missir gersamlega tökin á og það sem meira er hann missir tökin á sjálfum sér og lífi sínu.

Þegar Naja Marie Aidt byrjaði að skrifa bókina um Thomas, systur hans, eiginkonu, meðeiganda og fleiri var hún þegar  ásamt tveimur skáldsystrum sínum og löndum, þeim Linu Knutzson og Mette Moistrup, byrjuð að skrifa bókina Frit flet sem fjallar um konur frá næstum því öllum sjónarhornum. Stuttlega var sagt frá þeirri bók í þættinum Orð*um bækur 26. apríl 2015 

Nú var hins vegar komið að karlmanninum og öllum goðsögnunum tengdum honum. Í samtali við Naju Marie sem heyrist í þættinum segir hún m.a. að það hafi vakið sér nokkr furðu hversu auðvelt það reyndist henni að setja sig í spor karlmanns, nánar tiltekið karlmannsins Thomasar sem, þar til faðir hans glæpamaðurinn fellur frá í fangelsi, hefur lifað nokkuð áhyggjulausu lífi sem eigandi fínnar ritfangaverslunar í félagi við góðan vin og kærasti hinnar stórglæsilegu Patriciu en þau kunna sannarlega að una sér saman þrátt fyrir ólíkar hugmyndir um ýmsa hlut, m.a. barneignir.