Í gærkvöldi steig sinfoníuhljómsveit Gautaborgar á stokk í Hörpu en hún þykir ein besta sinfóníuhljómsveit heims. Stjórnandinn, Gustavo Dudamel, er ein skærasta stjarnan í tónlistarheiminum í dag.
Þrátt fyrir að vera aðeins þrítugur hefur Gustavo Dudamel skipað sér í fremstu röð tónlistarmanna og þykir einn áhrifamesti stjórnandinn í dag. Auk þess að vera fastur stjórnandi Gautaborgarsinfóníunnar er hann tónlistarstjóri Los Angeles Fílharmóníunnar og listrænn stjórnandi sinfóníuhljómsveitar Simón Bolívar í heimalandi sínu, Venezuela. En hvað er það sem hrífur áhorfendur svona mikið?
Með því að smella hér má sjá sjónvarpsviðtal við Dudamel.
Tónlistaruppeldi sitt fékk Dudamel í gegnum kerfi sem kallast El Sistema. El sistema starfrækir fjölda hljómsveita fyrir ungt fólk og gegnum það hafa mörg börn frá efnaminni heimilum öðlast menntun og framtíð með tónlistinni.
Dudamel segir það vera sannan heiður að koma til Íslands og kveðst hlakka mikið til að koma fram í Hörpu.
Gustavo Dudamel fæddist í Venesúela árið 1981. Hann er einn af eftirsóttustu og
áhrifamestu stjórnendum yngri kynslóðarinnar og ein skærasta stjarnan í heimi tónlistarinnar.
Hann er aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Gautaborgar, listrænn stjórnandi
Los Angeles Fílharmóníunnar og Orquesta Sinfónica Simón Bolívar í Venesúela.
Hann hefur komið fram með öllum helstu hljómsveitum heims og unnið víða til verðlauna,
m.a. hlotið Gustav Mahler stjórnendaverðlaunin sem komu honum á kortið á alþjóðavísu
árið 2004. Um hann hefur verið fjallað í helstu fjölmiðlum heims og hann hlotið framúrskarandi
dóma í helstu fagtímaritum tónlistar. Dudamel var m.a. valinn einn af hundrað
áhrifamestu manneskjum ársins 2009 af tímaritinu Time.
Gustavo Dudamel stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Gautaborgar í fyrsta sinn árið 2005
á BBC Proms hátíðinni í London og svo aftur í Gautaborg árið 2006 og var í kjölfarið
ráðinn aðalstjórnandi sveitarinnar. Dudamel ferðast víða um heim og hefur stjórnað
Vínarfílharmóníunni, Berlínarfílharmóníunni, Sinfóníuhljómsveit Chicago, Lundúnafílharmóníunni,
New York fílharmóníunni auk þeirra staða þar sem hann er fastráðinn.
Dudamel er einnig þekktur fyrir starf sitt með félagslega illa stödd eða fátæk ungmenni
í Venesúela sem tónlistarmenn alls heimsins líta til sem fyrirmynd. Hann þekkir af eigin
raun hvernig tónlist getur breytt lífi fólks. Hann vinnur samkvæmt því sem kallað er í
Venesúela “El Sistema” þar sem tónlist er nýtt til jákvæðra félagslegra breytinga. Þar er
börnum, sem mörg hver eiga undir högg að sækja og koma úr fátækrahverfum, að læra
að leika á hljóðfæri og leika í hljómsveit. El Sistema nær til hundruð þúsunda barna ár
hvert og er farið að ryðja sér til rúms í Bandaríkjunum meðal annars í ungsveit Sinfóníuhljómsveitar
Los Angeles þar sem Gustavo Dudamel er nú aðalstjórnandi.