Sjúkrasjóður VR er kominn að þolmörkum vegna aukinnar kulnunar í starfi meðal félagsmanna. Formaður VR segir að kulnun sé alvarlegra vandamál en fólk geri sér almennt grein fyrir.
Þegar fólk brennur út vegna álags nýtir það fyrst veikindadaga á vinnustað, sé það í vinnu, og fær svo greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags. Ef fólk nær ekki bata eftir ákveðinn tíma fer það á örorku.
Segir þróunina ógnvænlega
„Þetta er orðið mun alvarlegra en fólk kannski almennt áttar sig á. Við höfum verið að sjá sjúkrasjóði okkar nálgast þolmörk, eins og þeir voru árið 2009, þegar atvinnuleysi var mjög mikið og margir misstu vinnu og heimili sín jafnvel. Þetta er mjög ógnvænleg þróun að sjá,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Hann segir engin merki um að þeim sé að fækka sem brenni út, þvert á móti fjölgi þeim með hverjum mánuði.
VR hratt af stað auglýsingaherferð í sumar til að vekja athygli á kulnun í starfi. Í myndbandi VR segir frá pari sem svarar öllum vinnutengdum tölvupóstum fyrir háttinn og lætur starfið ganga fyrir öllu öðru í lífinu. Ragnar segir markmiðið með herferðinni að vekja athygli á einni tegund kulnunar, það er kulnunar vegna álags í starfi.
Álag bæði í vinnu og heima
„Við vitum að fólk er undir gríðarlegu álagi í vinnu. Við vitum öll hvernig tæknin hefur leikið okkur eða þannig, við erum að svara tölvupóstum langt fram eftir kvöldi. Við erum að fara með börnin okkar í tvær til þrjár íþróttir strax eftir vinnutíma. Við vitum að það er mikil pressa frá samfélagsmiðlum, þar lifa allir hinu fullkomna lífi, ef hægt er að segja sem svo, og þetta eru samhangandi margir þættir sem skapa langvarandi álag.“
Kulnun vegna álags í vinnu, og af öðrum orsökum, hefur lítið verið rannsökuð hér á landi. Í haust hefst rannsókn á því hvaða hópar eru útsettari fyrir kulnun en aðrir. Rannsóknin verður gerð í samvinnu stéttarfélaga, Virk starfsendurhæfingar og ríkisins.