Sjúkrahótel Landspítalans er eitt af umhverfisvænstu húsum á landinu og fékk hæstu einkunn sem hús hefur fengið á Íslandi. Vaxandi áhugi er á vistvænum byggingum bæði hjá hinu opinbera og einkaaðilum, segir Helga Jóhanna Bjarnadóttir, verkfræðingur og sviðsstjóri umhverfismála hjá verkfræðistofunni Eflu.
Sjúkrahótelið fékk fékk 81% stiga sem er svokölluð Excellent einkunn samkvæmt vistvottunarkerfinu BREEAM. Til þess að fá slíka einkunn þarf að horfa til heildarumhverfisáhrifa byggingarinnar.
Sérkenni sjúkrahótelsins.
Helga segir að búið sé að huga að ýmsum hlutum í byggingunni til að tryggja að þeir falli að kröfunum og séu í lagi í gegnum allt ferlið. Sumir þessara þátta hafi með heilsu og vellíðan að gera eins og hljóðvistarhönnun, hönnun lýsingar, loftæði o.s.frv. Einnig þurfi að fylgja því eftir á framkvæmdatímanum að menn velji efni sem gufa ekki upp, rokgjörnum efnum sem valdi þá slæmum loftgæðum. Hugað sé að orkunýtingu og búnaði fyrir til dæmis loftræstingu og lýsingu sem notar litla orku.
Skoðuð voru sérstaklega atriði sem gætu bætt innivistina í byggingunni. „Og þá sérstaklega loftgæðin og gerðum kröfur um að byggingarefni eins og gólfefni, loftaefni, málning, lím og lökk og þess háttar innihéldu undir ákveðnum kröfum af lífrænum rokgjörnum efnum, eins og formaldíði og þess háttar.“
Umhverfisvænar byggingar ekki dýrari
Helga segir að ekki sé dýrara að reisa umhverfisvænar byggingar þegar á heildina er litið, þegar litið er til líftíma og notkunartíma byggingarinnar. „Það eru ekki til íslenskar rannsóknir enda erum við nýbyrjuð á þessu en erlendar rannsóknir sýna það að fyrir skrifstofuhúsnæði þá erum við að tala um að það sé mjög sambærilegt.“
Hvers vegna fékk þessi bygging svona háa einkunn? „Það var tekið tillit til mjög margra þátta. Hún skoraði tiltölulega hátt í þáttum sem snúa að umhverfis- og öryggisstjórnun á verktíma og þarfagreiningu með notendum. Það voru gerðar lífsferliskostnaðargreiningar, reiknaður út heildarkostnaður við alla bygginguna. Vistvænar samgöngur skora mjög hátt líka hérna. Það er hér er aðstaða fyrir hjólandi, sturtuaðstaða og rafbílastæði verða hér fyrir utan. Öruggar göngu- og hjólaleiðir verða hannaðar hérna og síðan er tekið tillit til úrgangsmála á byggingartíma, líka á notkunartímanum.“
Vaxandi áhugi á umhverfisvænum byggingum.
Fleiri byggingar koma til með að fara gegnum BREEAM-vottunina. Allar byggingar nýs Landspítala fara í gegnum þessa vottun. Þjóðgarðamiðstöðin á Þingvöllum er í vottunarferli, líka miðstöðin á Hellisandi og í Vatnajökulsþjóðgarði, skrifstofubygging Eflu og nýjar skrifstofur Alþingis.
„Í rauninni hefur Framkvæmdasýsla ríkisins sett allar byggingar núna í þetta ferli og Reykjavíkurborg sömuleiðis er að setja sínar byggingar í gengum þetta vottunarferli og síðan eru nokkrir einkaaðilar að farnir að gera það líka. Þannig að þetta er að byrja hér á landi? Já, þetta byrjaði fyrir nokkrum árum en það er ákveðin aukning í þessu núna.“