Sjúklingar á Landspítala þurfa að liggja inni í tækjageymslu vegna plássleysis. Yfirlæknir segir að aðstaðan sé óboðleg. Í tvö ár hefur skrifstofa á spítalanum verið lokuð vegna myglu.
Húsnæði Landspítalans er á víð og dreif um höfuðborgarsvæðið. Elstu byggingar við Hringbraut eru um 80 ára gamlar. Starfsfólk og stjórnendur Landspítala hafa ítrekað sagt húsnæði vera óboðlegt. Lyftur í húsnæðinu bila nærri vikulega og gangainnlagnir eru algengar
Tómas Guðbjartsson, yfirlæknir á Landspítalanum, segir þetta aðstöðu sem ekki sé fólki bjóðandi - það sé ekki hægt að bjóða sjúklingum eða aðstandendum upp á svona þjónustu né starfsfólki.
Tómas segir það vissulega sérstakt að vera læknir og telja vinnustað sinn heilsuspillandi. Á hurðinni að skrifstofu hans var sett upp skilti til gamans. Á dönsku segir að heimsóknir séu bannaðar. „En þetta hefur reynst svolítið skrýtið vegna þess að þessi skrifstofa hefur verið lokuð í tvö ár út af myglu.“
Þrír læknar hafa veikst vegna myglu. Framkvæmdir hafa staðið yfir að undanförnu og er meðal annars búið að skipta um um glugga, en það dugar ekki til. „Það er ennþá heilmikið mygluvandamál hérna inni í steininum, þarna inni er blautur korkur sem er orðinn myglaður. Það er þetta sem er að gera okkur lífið leitt, svona gró úr myglunni sem fara í öndunarfæri starfsfólks.“
Vegna mygluvandamála deilir yfirlæknirinn og prófessorinn skrifstofu með vakthafandi hjúkrunarfræðingi. Á kvöldin og um helgar er skrifstofan nýtt sem vaktherbergi. „Það var aspest hérna í veggjunum sem var tekið út og gluggarnir og veggirnir voru lagaðir. Þetta er eitt af þeim herbergjum í gamla spítalanum þar sem er allavega sæmilega gott loft. Þetta er svona lýsandi dæmi um aðstöðuleysi. Sumir kollegar mínir hafa þurft að taka sjúkrastofur fyrir skrifstofuaðstöðu. Ég held að þetta segi allt um aðstöðuna.“