„Ég er með mjög marga krakka sem koma til mín sem hafa verið byrjaðir á vefum eins og Youtube með rásir í kringum 6 ára”, segir sálfræðingurinn Eyjólfur Örn Jónsson sem hefur sérhæft sig í meðhöndlun fólks sem er haldið tölvu- eða skjáfíkn. „Miðillinn verður náttúrulega bara eins og annar útlimur, önnur hönd. Þetta verður eitthvað sem fer að skipta gríðarlega miklu máli “.
Í lokaþætti Sítengd - veröld samfélagsmiðla á sunnudaginn verður rætt um skjáfíkn en mikil aukning hefur orðið á þeim vanda meðal íslenskra barna og ungmenna með tilkomu samfélagsmiðla. Yngstu börnin eru sjö ára að sögn Eyjólfs og fíknin lýsir sér þannig að tækin ná stjórn á lífi barnanna. „Ég er með mýmörg dæmi um krakka sem mæta ekki í skólann því þeir geta ekki hugsað sér að fara frá, í raun og veru, miðlinum sínum“. Að sögn Eyjólfs ganga sumir unglingar mjög langt í blekkingarleik sínum gagnvart foreldrum. Þeir þykist mæta í skólann og falsa einkunnarspjöld svo ekki komist upp um dapran námsárangur.
Hann segir að endurgjöf í gegnum samfélagsmiðla geti haft mjög slæmar afleiðingar fyrir börn. „Ef að myndböndin þín fá nógu mörg „like“ eða ef að myndunum þínum er vel tekið þá líður þér vel en ef þú upplifir að það sé ekki verið að taka vel í það þá líður þér illa, oft mjög illa.“
Nánar verður rætt við Eyjólf Örn í þættinum Sítengd - veröld samfélagsmiðla á sunnudag klukkan 20:35 á RÚV.