Arna Pálsdóttir segir mikilvægt að hafa í huga í umræðu um sjálfsvíg að þau séu dánarorsök, eins og aðrar dánarorsakir, en ekki eitthvað sem eigi að fara leynt. Faðir Örnu svipti sig lífi árið 2001 þegar hún var 16 ára gömul. Á dögunum skrifaði hún pistil um málefnið sem var birtur á Vísi.

Alþjóðlegur dagur gegn sjálfsvígum er í dag og af því tilefni verður haldið opið málþing í húsakynnum deCode og kyrrðarstundir í nokkrum kirkjum til minningar um fólk sem hefur svipt sig lífi. Arna segir að fyrst eftir fráfall föður hennar hafi hún mikið hugleitt hvað annað fólk myndi halda um þau fjölskylduna. „Ég var alltaf svolítið í því að byrja á að láta fólk vita að við vorum rosalega flott fjölskylda sem átti hund, hús og Bens. Bara af því að ég var alltaf svo hrædd um að fólk myndi búa sér til einhverja mynda af okkur,“ sagði Arna í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Í þá daga fylgdi mikil skömm því að ástvinur svipti sig lífi. Umræðan um sjálfsvíg hefur þó breyst mikið á þeim tíma sem liðinn er síðan faðir hennar féll frá árið 2001, að mati Örnu. Fyrst og fremst að slíkum sorgartíðindum fylgi ekki eins mikil skömm í dag og þá.

Brýnt að fólk íhugi hvort það hafi fordóma

Í gegnum tíðina hefur Arna heyrt fólk segja ýmislegt um sjálfsvíg almennt, eins og til dæmis að fólk sem svipti sig lífi sé sjálfselskt og hafi „valið auðveldu leiðina“. Þá nefni fólk líka stundum að viðkomandi hafi átt svo mörg börn og haft allt og svo framvegis. Arna telur slík ummæli stafa af vanþekkingu og að mikilvægt sé að hver og einn fari í sjálfsskoðun um viðhorf sín til sjálfsvíga, hvort fólk sé ef til vill haldið fordómum. „Ég hef alltaf hugsað um sjálfsvíg þannig að þau séu dánarorsök eins og aðrar dánarorsakir, eins og slys eða veikindi.“ Arna bendir jafnframt á að aðdragandi að sjálfsvígi sé ólíkur hjá hverjum og einum. „Hins vegar er sjálfsvíg ekki þannig að fólk hugsi; „mig langar ekki til að lifa“. Að baki sjálfsvígi er alveg gríðarleg barátta viðkomandi að halda sér á lífi. Að vakna á morgnana, að eiga allt en geta ekki þessa tilveru,“ segir Arna.

Sömu ummæli viðeigandi og við aðrar dánarorsakir

Arna bendir á að í daglegu lífi sé fólk oft spurt um foreldra sína. Þegar hún segi að faðir hennar hafi sé látinn voni hún alltaf að fólk spyrji ekki hvernig hann hafi látist. Ástæðan er ekki sú að hún vilji ekki ræða um það, heldur frekar sú að fólki bregði alltaf mikið og að vandræðaleg þögn fylgi í kjölfarið, einmitt af því að fólk líti ekki á sjálfsvíg sem hverja aðra dánarorsök og viti ekki hvað það eigi að segja. Hún fékk góð viðbrögð við pistlinum á Vísi og í kjölfar hans hefur fólk sagst tengja við hann og að það hafi látið óviðeigandi ummæli falla um sjálfsvíg og spurt hana hvað eigi að segja þegar fólk greinir frá því að ástvinur hafi svipt sig lífi. Hún segir það ekki flókið; best sé að segja það sama og þegar aðrar dánarorsakir séu til umræðu. Til dæmis sé hægt að segja; „en leiðinlegt“, spyrja hvort það sé langt síðan og segja að fólk samhryggist.