Framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala segir að það eigi ekki að geta gerst að fólk svipti sig lífi á geðdeild spítalans. Ungur maður svipti sig lífi þar aðfararnótt 11. ágúst. Öllum steinum verði velt við til þess að komast að því hvað fór úrskeiðis.

„Landspítalinn harmar þennan atburð og hugur okkar er hjá fjölskyldu og vinum í þessari sorg,“ segir Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala. „Svona lagað á ekki að geta gerst og við munum rannsaka ítarlega hvað hugsanlega fór úrskeiðis þarna,“ segir hann.

Lögregla var strax kölluð til og málið hefur verið tilkynnt til Embættis landlæknis. „Við viljum rannsaka ítarlega hvað fór þarna úrskeiðis til þess að reyna að gera allt sem við getum til að bæta úr og til að koma í veg fyrir að svona lagað geti gerst,“ segir hann.   

Aðspurður um það hvort mannekla sé ástæða þess að svo fór, þá segir Ólafur að allir þættir málsins verði skoðaðir. „Það er þannig í atvikum almennt að ýmislegt getur spilað inn í. Við munum velta við hverjum steini í þessu máli.“

Var öryggi hans á geðdeild nægilega vel tryggt? „Við munum rannsaka ítarlega hvernig málum var háttað og hvort að verkferlum okkar var fylgt í þessu máli.“

Nánar verður rætt við Ólaf í kvöldfréttum útvarps.