Líklegt er að eftir nokkra mánuði verði komin upp sjálfsafgreiðslukerfi í stað starfsfólks á afgreiðslukössum í matvöruverslunum hér á landi, að mati Ægis Más Þórissonar, forstjóra Advania. Slík kerfi eru víða í matvöruverslunum annars staðar á Norðurlöndunum og í Bretlandi.

Með sjálfsafgreiðslukerfi er bæði hægt að spara og veita betri þjónustu, að sögn Ægis. Samkeppni á matvörumarkaði sé mikil. „Þá er það þetta sem mönnum dettur helst í hug, að bæta upplifun viðskiptavina þegar þeir eru komnir inn í verslunina. Liður í því að gera þetta er að hugsa í hvað tími starfsfólksins ætti að fara. Á hann að fara í að sitja eða standa við afgreiðslukassa eða í að bæta upplifun viðskiptavina inni í versluninni?“ Störfin breytist úr því að vera afgreiðslustörf í að verða þjónustustörf. Viðskiptavinir fái þannig meiri aðstoð við að velja vörur en ekki við að borga og setja í poka. Rætt var við Ægi í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Að sögn Ægis er líklegt að fjöldi starfsmanna í matvöruverslunin sé miðaður við fjölda íbúa en ekki álagstíma þegar til dæmis þremur til fjórum rútum með ferðamönnum sé lagt fyrir utan. Þannig sé betur hægt að mæta álagstíma þegar sjálfsafgreiðslukerfi eru í boði. Hann segir slík kerfi einföld í notkun en að yfirleitt sé það þannig í verslunum að starfsfólk kenni viðskiptavinum á afgreiðslukerfin. „Þar sem þetta hefur verið í boði í einhvern tíma þá velja viðskiptavinir þetta frekar en að fara á kassa.“

Hægt er að hlusta á viðtalið við Ægi Má Þórisson, forstjóra Advania, í spilaranum hér fyrir ofan.