„Sjálfkeyrandi bílar verða rafbílar“

03.08.2017 - 20:04
Rafbílar hafa verið mikið til umræðu undanfarna daga og þykir nokkuð ljóst að þeim mun fjölga verulega á næstu árum. En eins og nafnið gefur til kynna ganga rafbílar fyrir rafmagni og þá þarf að hlaða. Lítið mál ætti að vera að ferðast innan svæða, eins og til dæmis á höfuðborgarsvæðinu. Þar taka hraðhleðslustöðvar við.

„Þessar hraðhleðslustöðvar sem að mönnum er svo tíðrætt um, mikilvægi þeirra er fyrst og fremst að fleyta mönnum á milli svæða og koma mönnum þá inn á sín svæði. En innan svæða þá er þetta á heimilum og hjá fyrirtækjum, “ segir Sigurður Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs.

Þannig þyrfti að koma upp aðstöðu til að hlaða rafbíla á svæðum milli byggðakjarna. Slíkt kallar að sögn Sigurðar ekki á teljanlega innviðauppbyggingu.

„Þetta þarf bara að vera á réttum stöðum þar sem kerfið er vel í stakk búið til að taka við hraðhleðslustöðvum sem taka auðvitað mikið afl þannig að það þarf að raða þeim á rétta staði einhversstaðar þarna á milli svæða en hins vegar verður að líta á það að það tekur enga stund að setja upp hraðhleðslustöð. Þetta er til dæmis ólíkt bensínstöðvum sem við höfum allt of mikið af að þarna með mjög skömmu fyrirvara geturðu bætt við stöð en að búa til nýja bensínstöð, það er margra mánaða prósess.“

Hvað tekur langan tíma að setja upp svona hraðhleðslustöð?

„Það er dagsverk.“

 

Þannig er hægt að bæta við hraðhleðslustöð um leið og í ljós kemur að þær sem fyrir eru anna ekki eftirspurn. 

Sigurður segir að olíufélögin séu meðvituð um þessa þróun.

„Þau vita alveg að rafbíllinn er að koma og hann er að taka við bensín og dísilbílum hratt.“ Þá sé ljóst að leiðandi tæknifyrirtæki í bílaiðnaði sjá fyrir sér rafmagnaða framtíð. „Sjálfkeyrandi bílar verða rafbílar, ekki bensín og dísilbílar. Það verður svo að koma í ljós hvað hún verður stór hluti og hvað snemma hún verður í umferð en hún mun öll byggja á rafmagni.“