Sjálfkeyrandi bílar í þróun hjá Apple

14.06.2017 - 21:39
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Tim Cook, forstjóri Apple, segir fyrirtækið vinna að þróun sjálfkeyrandi bíla. Hann varpaði nokkru ljósi á þróunarverkefni þess efnis, sem mikil leynd hefur hvílt yfir hingað til.

Cook segir þróun sjálfkeyrandi bíla vera stærsta verkefnið á sviði gervigreindar sem hugsast getur. Hann segir fyrirtækið helst beina kröftum sínum í þróun hugbúnaðar fyrir sjálfkeyrandi bíla, þó hann útiloki ekki að fyrirtækið muni sjálft á einhverjum tímapunkti framleiða sjálfkeyrandi bíla.

Talið er að forstjórinn hafi greint frá þessu til að sýna fram á getu fyrirtækisins til að sækja inn á nýja markað. Hingað til hafa forsvarsmenn Apple lýst því yfir opinberlega að fyrirtækið ynni að þróun sjálfvirkra kerfa. „Einn tilgangur sjálfvirkra kerfa eru sjálfkeyrandi bílar. Þeir eru sennilega eitt mest krefjandi gervigreindarverkefni sem hægt er að ráðast í,“ sagði Cook í samtali við Bloomberg. 

Gunnar Dofri Ólafsson