37 lægðir hafa farið yfir landið frá 1. nóvember. Það hafa sjaldan liðið meira en þrír dagar á milli storma með tilheyrandi viðvörunum og samgöngutruflunum.

 

Fátt hefur verið meira rætt á kaffistofum landsins þennan veturinn en blessað tíðarfarið. Sitt sýnist nú hverjum um það. En nú skulum við leggja allar tilfinningar til hliðar og rýna bara í hinar ísköldu staðreyndir máls. 

„Það sem hefur verið að gerast í vetur er að það hafa bara ekki verið hæðir eða svona háþrýstisvæði neins staðar nálægt okkur. Þau virka oft sem svona vörn við svona lægðum, þau halda þeim frá,“ segir Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur.

Við höfum sumsé verið mjög berskjölduð gagnvart þessum lægðum. Stór kuldakerfi sem bægja lægðum frá hafa legið yfir Síberíu og Kanada og myndað eins konar trekt yfir Norður-Atlantshafi sem hefur flutt lægðirnar af miklu afli yfir Ísland á færibandi.

„Það er orðið svolítið langt síðan að við höfum átt kafla þar sem að það koma svona stuttir gluggar inn á milli,“ segir Elín Björk. „Veturinn er kannski sérstakur fyrir það að það hafa ekki liðið meira en þrír og kannski fjórir dagar þar sem ekki hefur verið stormviðvörun einhvers staðar á landinu að minnsta kosti.“ Framhaldið er ósköp svipað. „En svona við kannski förum að fara að sjá meira af lægðum þar sem að við höfum rigningu en ekki snjó og svo svona vonandi dvínar þetta í apríl og maí. Við skulum allavega vona það,“ segir Elín Björk og hlær.

Við minnum ykkur svo á að vorjafndægur er í næstu viku svo það eru allavega bjartari tímar framundan.