Það er spenningur í loftinu. Torgið er fullt af fólki. Fólki sem hefur staðið upp frá tölvunum sínum og gert sér ferð til að sjá þetta með eigin augum. Lítil stúlka togar hugsi í kápu móður sinnar og spyr hana spurningar. 

„Mamma, af hverju má ekki pissa bak við hurð?“  
„Suss,“ svarar mamma stúlkunnar, „ekki spyrja svona heimskulega.“
Stúlkan þagnar, rekur augun í grjóthnullung og kastar honum snúðug ofan í skurð.  
„Ekki svona, þetta er stranglega bannað!“ skammast mamma hennar. 
„Af hverju?“ spyr stelpan forviða. 
„Bara. Hefur alltaf verið það. Suss nú, þarna kemur keisarinn.“ 

Stúlkan sér ekki neitt fyrir fullorðna fólkinu. Hún horfir á það taka andköf af hrifningu. Allir halda símanum sínum á lofti og taka myndir. Stelpan hoppar, treður sér á milli einhverra, ýtir sér upp, klifrar að lokum upp á styttu af gamalli þjóðhetju.
„Mamma!“ kallar hún af öxlum Jóns Sigurðssonar, „af hverju er keisarinn ekki í neinum fötum?“ 

Það slær þögn á mannskapinn. Fólk lítur upp frá símunum. Upp á barnið. Aftur á keisarann sem stendur nakinn á sviðinu. 

Pissandi drengurinn 

Ekki alls fyrir löngu kom í ljós að stytta nokkur í Brussel, Pissandi drengurinn, hefur verið að míga mörgþúsund lítrum af drykkjarhæfu vatni í hverri viku ofan í holræsi - um það bil eitt til tvö þúsund lítrum á dag. Yfirvöld gerðu ráð fyrir að vatnið færi í hringrás, en það reyndist misskilningur. Nú hefur þessu verið kippt í liðinn.  

Sagan á bak við styttuna er ekki alveg á hreinu - þær eru reyndar nokkrar. Ein segir að styttan hafi verið gerð til minningar um drenginn Julianske, sem var að njósna um óvinaher sem ætlaði sér að sprengja upp borgina. Hann gerði sér lítið fyrir, pissaði á logandi sprengjuþráðinn og bjargaði Brussel frá falli. Ekki veit ég hvort einhver hafði sagt honum að ekki mætti pissa bak við hurð, en blessunarlega var hann nægilega óhlýðinn til að þora að láta vaða.  

Einhverjum öldum síðar reis svo upp hin mígandi stytta. 

Greta er hetja 

Greta Thunberg hefur verið tilnefnd til Nóbelsverðlaunanna. Hún hefur verið gerð að hetju. Hún hefur verið dregin úr fjöldanum, sett upp á svið og á torginu stöndum við og klöppum. Hvetjum. Aðdáendur mála af henni myndir og ég spái því að eftir einhver ár verði búið að reisa styttu framan við þinghús Stokkhólms, á staðnum þar sem hún mótmælti í fyrsta sinn aðgerðarleysi stjórnvalda í loftslagsmálum.  

Það er eitthvað rangt við þetta. Hin 16 ára Greta er orðin einhvers konar andlit baráttunnar gegn loftslagsbreytingum. Hún er sett á stall, eins og borðaklædd kona í bikiní, sem segist vilja „World Peace“. Greta vill þó ekki vera andlit baráttunnar – held ég – mér heyrist hún vilja að yfirvöld hlusti og geri eitthvað. Hún vill ekki vera krúttleg stelpa með stóra drauma, hún vill aðgerðir.  

Hvunndagshetjur og börn 

Verkfall ljósmæðra fyrir nokkru skók alla þjóðina. Hugmynd okkar um ljósmóðurina helst í hendur við eitthvað hreint, fallegt og ósérhlífið. Konurnar sem hafa tekið á móti börnunum í aldaraðir hafa bjargað lífum og sálarheill. Nú er komið að börnunum. Börnin eru mætt út á torg og þau eru brjáluð.  

Börnin, sem eiga að vera í skólanum og þess á milli í skipulögðu tómstundastarfi áður en þau fá svo sinn skammtaða skjátíma, eru komin út. Þessi kynslóð, sem er alin upp fyrir framan ljómandi skjái, er skyndilega komin út á torg og mótmælir. Þau hópast raunverulega saman og andmæla aðgerðaleysi – í krafti fjöldans – í krafti líkama sinna hrópa þau: Við erum til.  

Hæ! Sjáið þið okkur? Heyrið þið í okkur?  

Af hverju er keisarinn ekki í neinum fötum? 

„Blessuð börnin…“ 

Ég sá einhverja grínara á Facebook skrifa eitthvað á þessa leið:
„Ókei, krakkar, sleppum utanlandsferðum, hættum að grilla pylsur og hamborgara. Engin ný föt eða snjallsíma, við stöndum með ykkur, krakkar!“  
Þetta vakti upp reiði hjá mörgum, sem fannst með þessu gert lítið úr krökkunum. Það er kaldhæðinn tónn í þessu gríni, sem er ömurlegur. Þessi barátta er raunveruleg og málstaðurinn mikilvægur. Hins vegar er þetta kannski ekkert svo vitlaust.  

Í kaldhæðninni gera grínararnir ráð fyrir að börnin lifi fyrir þessar „munaðarvörur“. Ég hugsa hins vegar að krakkarnir gætu alveg sætt sig við þær ofsaaðgerðir; að sleppa grilluðum pylsum og utanlandsferðum. Það er nefnilega alveg hægt að hafa gaman og gera lífið innihaldsríkt án þess að vera stanslaust á ströndinni eða í Legolandi.  

Að hlusta á börn

Forráðamenn eru einstaklingarnir kallaðir sem ala upp börn. Þeir hafa forræði. Ég ætla ekki að stinga upp á öðru fyrirkomulagi, ég held að þetta sé ágætt. Hins vegar er kannski áhugavert að íhuga þessa stöðu og setja hana í samhengi við samfélagið, þar sem meðlimir ríkisstjórnar eru einhvers konar forráðamenn okkar. Þeir eiga að hlusta á þegna sína, þannig virkar lýðræði, ekki satt? Hvers vegna er þá svona fáránlegt að hlusta á börnin? 

Það er ekki fáránlegt en það passar ekki í valdapíramídann. Forráðamenn eiga að vita betur. Þess vegna er óþægilegt þegar börnin fara að segja okkur til. Þau vita betur þegar við vitum upp á okkur skömmina.  

Nýju fötin keisarans 

H.C. Andersen var ekki fyrstur til að skrifa söguna af keisaranum og nýju fötunum hans. Hann las þýska þýðingu spænskrar sögu sem fjallar um sama efni. Svo er til indversk útgáfa af sögunni líka frá 13. öld. Andersen breytti henni þó örlítið því á síðustu stundu skrifaði hann inn barnið.  

Klæðskerarnir í sögunni hljóta að vera olíurisarnir og siðblindu fjárglæframennirnir. Þetta eru þau sem eru meðvitað að blekkja til að græða. Keisarinn er kannski við, vitleysingarnir sem samt höfum völd eða raunverulegu valdhafarnir, sem blindast af eigin hégóma. Við erum kannski almúginn, sem sjáum í gegnum fötin en treystum ekki á innsæið. Spilum með. Svo er krakkinn þarna í hópi almúgans – það er Greta Thunberg.

Samt held ég að Greta Thunberg vilji ekki verða hetja.

Hetjur sögunnar 

Mannkynssagan er full af hetjum. Hún er full af einstaklingum sem hafa skarað fram úr og breytt heiminum á einhvern hátt. Þar má nefna Martin Luther King, Rosu Parks, Albert Einstein, Fridu Kahlo, Jón Sigurðsson, Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, Malala Yousafzai, Jesú Krist og móður Theresu, og þar mætti lengi telja.

Sagan er líka full af blóðugu stríði í nafni hins og þessa. Þjóðir berjast, samfélagshópar berjast. Fólk berst hvert gegn öðru. 

Ég velti því stundum fyrir mér hvernig það væri ef allt fjármagn og mannauður sem fer í stríðsrekstur dag frá degi færi í að berjast gegn loftslagsbreytingum. Ef hetjan sem bjargar heiminum fengi nýja ásýnd. Hún væri ekki matsjó og ekki þjóðernishetja, því við höfum eignast sameiginlegan óvin.  

Við vitum vel að þetta er ekkert á dagskrá. Það er miklu mikilvægara að halda áfram að rífast um olíu, landsvæði og völd því annars er leiknum tapað.  

Að tapa völdum 

Það er erfitt að sleppa völdum og missa völd. Hvort sem það eru forréttindi okkar sem vesturlandabúa eða allt þetta sem við teljum til lífsgæða okkar í dag. Börnin eru næsta kynslóð. Þau eru gjörsamlega valdalausir einstaklingar sem nú berjast fyrir betri heimi, sínum heimi.  

Börn setja spurningarmerki við hlutina.
Af hverju má ég ekki pissa bak við hurð?
Hvers vegna í ósköpunum er bannað að kasta grjóti ofan í skurð? Af hverju er keisarinn ekki í neinum fötum?

En þeim er bara sagt að þegja, meðan fréttatíminn er.  

Keisarinn og fötin 

Ég skal segja þér af hverju keisarinn er ekki í neinum fötum. Hann lét hégómann narra sig og þykjustu-klæðskera plata sig. Hann var í raun of djúpt sokkinn í firringuna til að hlusta á eigið innsæi því hann sá jú engin föt sjálfur. Kannski hefur þetta atvik þó orðið til þess að keisarinn léti af þessari ofneyslu og hégóma og nýtti dressin sín lengur en í viku. 

Það eru nefnilega breyttir tímar. Einu sinni var kannski í lagi að stytta af litlum strák mygi tvöþúsund lítrum af drykkjarvatni daglega ofan í holræsi í Brussel. Einu sinni var í lagi að kaupa hálfan blómkálshaus í frauðplastbakka innpakkaðan í plastfilmu. Einu sinni kippti sér enginn upp við að bara væru einnota plastglös í boði á vinnustöðum. Einu sinni þótti ekkert athugavert við að fljúga í verslunarferð til Boston og þykir kannski ekki enn.  

Einu sinni gat keisarinn gengið um allsber og óáreittur. En svo þurfti fjandans krakkinn að opna munninn.