Arkitektinn Sigvaldi Thordarson var bæði afkastamikill og listfengur á sinni stuttu starfsævi og hús hans setja mikinn svip á mörg hverfi borgarinnar.

Sigvaldi fæddist á Ljósalandi í Vopnafirði 1911 og lést aðeins 52 ára gamall árið 1964. Sigvaldi var einn af fulltrúum módernismans í íslenskri byggingalist og þekktur fyrir að nota gulan, bláan og hvítan lit á áberandi hátt í verkum sínum.

Sigvaldi teiknaði bæði stór og smá verkefni og starfaði um árabil á teiknistofu Sambands íslenskra samvinnufélaga.

Mynd- og tónlistarmaðurinn Logi Höskuldsson hefur mikinn áhuga á Sigvalda Thordarson og eru allar myndir í þessari færslu teknar ef instagramsíðu Loga, þar sem finna má ótal fleiri. Hann hefur sett sér það markmið að taka mynd af hverju einasta húsi sem Sigvaldi teiknaði og kortleggja þau. Víðsjá ræddi við Loga á dögunum um þetta heillandi og sérstaka áhugamál.

Hjónin Sigurður Ólafsson verkfræðingur hjá Össuri og Margrét Þorvaldsdóttir starfsmaður Hafrannsóknarstofnunar búa í Sigvaldahúsi í Hjálmholti 12. Áður bjuggu þau við Brúnaveg, einnig í húsi eftir Sigvalda. Lísa Pálsdóttir ræddi við Sigurð og Margréti um húsið og áhuga þeirra á arkitektinum.

Það er ljóst að arfleið Sigvalda Thordarson í íslenskri byggingarlist er mikil. Hann skildi eftir sig 297 skráð verk á tæplega 20 ára ferli.

Lísa Pálsdóttir fjallaði um feril Sigvalda Thordarson í tveimur þáttum.  Sá fyrri er efst í færslunni en hér má hlýða á þann síðari í fullri lengd.