Rokkið lifir, segja þrír ungir rokkarar í hljómsveitinni Blóðmör, sem sigraði í Músíktilraunum í gær; öllu máli skipti að textarnir séu málfræðilega réttir. Þeir ætla nú á fullt í að gefa út fyrstu plötuna sína; sem ber nafnið Líkþorn.
Hvernig er tilfinningin að vinna músíktilraunir? „Rosalega góð. Ég trúi þessu ekki enn þá sko. Svo stoppar síminn ekki, endalaus tilboð og svona,“ segir Ísak Þorsteinsson, trommari í Blóðmör.
Þeir segja að markmiðið hafi verið að komast í úrslit keppninnar en þeir hafi ekki búist við því að vinna. Þeir eru 17 og 18 ára og hafa spilað saman í um þrjú ár og sækja innblástur í aðrar íslenskar rokkhljómsveitir eins og Skálmöld og HAM.
„Líkþorn var kosið ljótasta orðið í íslensku einhvern tímann. Þess vegna ákvað ég að skíra lag það. Á þessum tíma var ég upptekinn að því að tala góða íslensku, þess vegna eru þessir textar allir málfarslega réttir,“ segir Haukur Þór Valdimarsson, söngvari og gítarleikari í Blóðmör.
Þeir reikna með gefa út plötuna Líkþorn innan nokkurra vikna. Nú spilið þið þungt rokk, er það ekkert að detta úr tísku? „Nei alls ekki, rokkið lifir,“ segir Ísak jafnframt.