Sigríður og Theódóra meðal ræðumanna í kvöld

13.09.2017 - 11:45
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson  -  RÚV
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, flytur stefnuræðu sína á Alþingi í kvöld og verður ræðunni og umræðum um hana sjónvarpað á RÚV og útvarpað á Rás 2.

Umræður um stefnuræðuna verða þrjár. Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, verður ræðumaður Sjálfstæðisflokks í annarri umferð en spjótin hafa staðið að henni undanfarna mánuði, einkum vegna mála sem tengjast uppreist æru kynferðisbrotamanna og barnafjölskyldum sem óska eftir hæli hér á landi. Páll Magnússon, fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis verður ræðumaður Sjálfstæðisflokks í þriðju umferð.

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra, talar fyrir Bjarta framtíð í fyrstu umferð. Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, í annarri umferð og Theodóra S. Þorsteinsdóttir, tólfti þingmaður Suðvesturkjördæmis í þriðju umferð. Theodóra tilkynnti í ágúst að hún hyggist láta af þingmennsku um næstu áramót. Þar með verður hún sá þingmaður sem er með stystan feril á Alþingi í að minnsta kosti hálfa öld. Hún sagði að þingstörfin hafi komið á óvart og snúist ekki um stefnumótun og framkvæmd verkefna líkt og störfin í sveitarfélagi en hún er einnig oddviti Bjartar framtíðar í Kópavogi.

Ræðumenn fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð verða Katrín Jakobsdóttir, annar þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður, í fyrstu umferð. Steingrímur J. Sigfússon þriðji þingmaður Norðausturkjördæmis verður ræðumaður Vinstri grænna í annarri umferð og í þriðju umferð Kolbeinn Óttarsson Proppé, sjötti þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður.

Fyrir Pírata tala Birgitta Jónsdóttir, þriðji þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður, í fyrstu umferð, Eva Pandora Baldursdóttir, fimmti þingmaður Norðvesturkjördæmis, í annarri umferð og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, tíundi þingmaður Suðvesturkjördæmis, í þriðju umferð.

Fyrir Framsóknarflokk tala Sigurður Ingi Jóhannsson, annar þingmaður Suðurkjördæmis, í fyrstu umferð. Í annarri umferð Lilja Alfreðsdóttir, níundi þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður, og í þriðju umferð Silja Dögg Gunnarsdóttir, sjöundi þingmaður Suðurkjördæmis.

Ræðumenn Viðreisnar verða í fyrstu umferð Benedikt Jóhannesson, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í annarri og í þriðju umferð Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Ræðumenn Samfylkingarinnar verða í fyrstu umferð Logi Einarsson, níundi þingmaður Norðausturkjördæmis. Í annarri umferð Oddný G. Harðardóttir, tíundi þingmaður Suðurkjördæmis, og Guðjón S. Brjánsson, áttundi þingmaður Norðvesturkjördæmis, í þriðju umferð.

Dagný Hulda Erlendsdóttir