Í sérstökum Kastljós-þætti sem sýndur var í Sjónvarpinu í kvöld er ljósi varpað á hvernig stóð á því að eiginkona forsætisráðherra ákvað að greina frá félaginu Wintris á Facebook-síðu sinni. Nokkrum dögum áður hafði sænski sjónvarpsmaðurinn Sven Bergman tekið viðtal við forsætisráðherra fyrir SVT þar sem hann var spurður út í félagið. Viðtalinu lauk með því að forsætisráðherra gekk út.

Í þættinum kemur fram að forsætisráðherra var ítrekað boðið að koma aftur í viðtal til að útskýra aðkomu að Wintris - Sigmundur þáði ekki það boð.

Fréttamönnum var jafnframt boðið af aðstoðarmanni ráðherrans að koma á fund þar sem ræða átti málið án þess að vitna mætti í efni fundarins. Því var hafnað.

Í framhaldinu ákvað eiginkona forsætisráðherra að upplýsa um tilvist Wintris á Facebook-síðu sinni.

Forsætisráðuneytið fór þess á leit við SVT að umrætt atriði, þar sem Sigmundur gengur út, yrði ekki birt.