SI fordæma kolefnaskatt

24.11.2011 - 15:49
Mynd með færslu
Samtök iðnaðarins telja að áform stjórnvalda um að leggja á kolefnisskatt skerði verulega samkeppnishæfni íslensks iðnaðar.

Í húfi séu þúsundir starfa um allt land.  Í ályktun sem SI sendu frá sér í dag gagnrýna samtökin áformin harðlega og segja að kolefnisskattur af þessu tagi eigi sér enga hliðstæðu í nágrannalöndunum.

Skatturinn muni draga verulega úr líkunum á því að frekari uppbygging verði í iðnaði sem sé háður notkun kolefna og geta Íslendinga til að nýta umhverfisvænar orkuauðlindir minnki einnig stórkostlega. Þá dragi kolefnisskattur á íslensk fyrirtæki tæplega úr losun gróðurhúsalofttegunda þar sem starfsemin flytjist einfaldlega úr landi og valdi jafnvel enn meiri útblæstri  þar sem óendurnýjanlegir orkugjafar eru nýttir.