Sextíu ár eru í dag liðin frá því Vilhjálmur Einarsson vann silfurverðlaun á ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu. Vilhjálmur setti ólympíumet í þrístökki og leiddi keppnina þar til þegar Brasilíumaðurinn Adhemar da Silva náði að stökkva lengra í lokatilraun sinni. Vilhjálmur varð fyrsti Íslendingurinn til að vinna til verðlauna á ólympíuleikum. Íslendingur komst ekki aftur á verðlaunapall á ólympíuleikunum fyrr en 28 árum síðar.

Vilhjálmur var annar aðeins tveggja keppenda sem Ísland sendi til keppni á ólympíuleikunum í Melbourne árið 1956. Bágur fjárhagur íþróttahreyfingarinnar olli því að ekki var unnt að senda fleiri til þátttöku. Með Vilhjálmi og Hilmari Þorbjörnssyni spretthlaupara fór einn fararstjóri.

Vilhjálmur stökk 16,25 metra og bætti eigið Íslandsmet um 43 sentímetra. Það stökk virtist lengi ætla að duga honum til ólympíuverðlauna en klukkutíma síðar stökk da Silva 16,33 metra og hrifsaði gullið af Vilhjálmi. Árangurinn Vilhjálms var þó talið eitthvert mesta íþróttaafrek Íslendings og það liðu hátt í þrír áratugir þar til næsti Íslendingur komst á verðlaunapall á ólympíuleikum.

„Já, vitanlega varð ég glöð, það hefði hver móðir orðið í slíku tilfelli,“ hafði Tíminn eftir Sigríði Vilhjálmsdóttur, móður silfurverðlaunahafans, næsta dag. Hún sagði að þar sem hann væri námsmaður og hefði unnið fyrir sér sjálfur hefði hann „ekki getað lagt eins mikla rækt við íþróttaiðkanir og hann hefði sjálfur kosið“.

Tíminn sagði Vilhjálm hafa tekið stórkostlegum framförum í aðdraganda Ólympíuleikanna og kvað fágætt að menn bættu sig um heilan metra á aðeins þremur mánuðum, líkt og Vilhjálmur hefði gert.

Morgunblaðið sagði frá afrekinu í frétt á forsíðu sem bar fyrirsögnina „Íslendingur kom öllum á óvart“ og sagði þetta vera „frábærasta afrek íslenzkra íþróttamanna“.

Íslenskir ólympíuverðlaunahafar

1956      Vilhjálmur Einarsson      silfur í þrístökki
1984      Bjarni Friðriksson            brons í júdó
2000      Vala Flosadóttir                brons í stangarstökki
2008      Handboltalandslið karla                silfur í handbolta