Fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir VR og Eflingar miða að sex staðbundnum verkföllum á næstunni sem gætu staðið fram yfir miðjan apríl en þá tæki við ótímabundið verkfall. Hvert verkfall stæði yfir í tvo til fjóra daga. Samanlagt er um að ræða 18 verkfallsdaga.
Skipulag staðbundinna verkfalla sem VR hyggst boða á næstunni var kynnt á stjórnarfundi félagsins í dag. Áætlunin sem kynnt var í dag hljóðar upp á 6 staðbundin verkföll eða samanlagt 18 verkfallsdaga. Öll verkföllin ná til sömu hótelanna og sömu rútufyrirtækjanna. Gert er ráð fyrir að fyrsta verkfallið standi í 2 daga. Stefnt er að því að atkvæðagreiðsla hefjist á miðvikudaginn kemur eða 3. mars. Miðað er við að fyrsta verkfallið geti hafist um 20. mars. Vonir stóðu til að það gæti hafist fyrr en það tekst líklega ekki. 2 til 4 dagar verða milli verkfalla sem standa frá tveimur upp í fjóra daga.
Áætlunin miðast við að þessi sex verkfalla hrina geti staðið fram yfir miðjan apríl en það ræðst að sjálfsögðu af því hvort samningar takist á þessum tíma. Í lokin taki við ótímabundið verkfall. Verkföllin beinast að allt að 25 hótelum á höfuðborgarsvæðinu og 2 til 3 rútufyrirtækjum. Meðal rútufyrirtækjanna eru eftir því sem Spegillinn kemst næst bæði Grayline og Reykjavík Excursions.
Þessi fyrirtæki sjá meðal annars um rútuferðir til og frá Keflavíkurflugvelli. Verkfallsaðgerðir VR munu ná til um 700 félagsmanna innan VR. Það vekur athygli að stefnt er að því að þessi hópur greiði atkvæði um verkfallsboðun eða einungis þeir sem fara í verkfall verði það samþykkt. Félagsmenn VR starfa við innritun og á skrifstofum hótelanna. Einhverjir rútubílstjórar eru félagsmenn VR en hvað varðar rútufyrirtækin gætu aðgerðir beinst að bókunum ferða. VR og Efling verða samstíga í staðbundnu verkföllunum sem þýðir að félagsmenn beggja félaga verða samtímis í verkfalli á sömu stöðum.
Í Speglinum var rætt við Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, um stöðuna í kjaramálum. Hlusta má á það í spilaranum hér að ofan.