Sjúkraflutningamaður á sérútbúnum bíl verður á Þingvöllum í sumar til að stytta viðbragðstíma ef slys verða í þjóðgarðinum. Yfirmaður sjúkraflutninga á Suðurlandi segir nauðsynlegt að fylla upp í holur í kerfinu.
Þjóðgarðsvörður og forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands undirrituðu í dag samning um að auka neyðarþjónustu í þjóðgarðinum. Bíll sem er mestu búinn eins og hefðbundinn sjúkrabíll verður til taks og sjúkraflutningamaður sinnir útköllum yfir daginn vegna slysa eða alvarlegra veikinda. „Það eru ákveðnar holur í kerfinu í utanspítalaþjónustunni eins og til dæmis hjá okkur þannig að þetta er leið okkar til að bæta í þær holur og styrkja viðbragðið á þeim strjálbýlu stöðum þar sem mikill ferðamannastraumur. Þetta er bara mjög jákvætt að þjóðgarðurinn hafi tekið svona vel í þetta og hjálpi okkur að bæta viðbragðið á þessum stað,“ segir Styrmir Sigurðarson, yfirmaður sjúkraflutninga á Suðurlandi.
Nokkur alvarleg atvik hafa komið upp í þjóðgarðinum síðustu ár, til dæmis við köfun í Silfru. Styrmir fagnar því að bregðast eigi við og hvetur ráðamenn til að íhuga aukinn viðbúnað t.d. við Geysi, Gullfoss og í Vatnajökulsþjóðgarði. Kostnaður við verkefnið er um tvær milljónir á mánuði sem þjóðgarðurinn greiðir. „Við höfum séð alvarlegri atvik og tíminn hingað frá Selfossi eða Reykjavík er alltaf hálftími til fimmtíu mínútur eftir því hve alvarlegt útkallið er og það er töluvert langur tími að bíða kannski með einstakling sem er þjáður eða í lífshættu þannig að við viljum stytta hér tímann fyrir slík atvik,“ segir Einar Á. E. Sæmundsson þjóðgarðsvörður.