Öryrkjar geta ekki sparað, segir Fjóla Egedía Sverrisdóttir, sem ætlaði að greiða niður skuldir með séreignalífeyrisparnaði en komst að því að við það myndi hún tapa tekjum. Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi hjá Öryrkjabandalagi Íslands, segir að margir öryrkjar séu fastir í fátæktargildru.
Bætur skerðast króna á móti krónu
Fjóla greindist með brjósklos í hálshrygg fyrir tíu árum og hefur ekki mátt vinna síðan. Fram að því hafði hún unnið í Kaupfélaginu á Egilsstöðum. Hún er öryrki og fékk um tvöhundruð fimmtíu og fimm þúsund krónur á mánuði frá Tryggingastofnun í fyrra. Greiðslan skiptist í grunnlífeyri um fjörutíu og sex þúsund krónur, aldurstengda örorkuuppbót um fjögur þúsund og sexhundruð, tekjutryggingu um hundrað fjörutíu og þrjú þúsund og framfærsluppbót um sextíu þúsund krónur sem þeir fá sem eru með lágar tekjur. Framfærsluuppbótin skerðist samkvæmt krónu á móti krónu reglunni.
Gat ekki tekið út séreignasparnaðinn
Fjóla hafði greitt í lífeyrissjóð og átti einnig tæpa milljón í séreignalífeyrissparnað.
„Svo ætlaði ég að taka út þennan lífeyri séreignasparnað til þess að borga upp lán þannig að ég þyrfti ekki að borga þessa okurvexti.“
Hún varð að hætta við það því þá hefði hún misst framfærsluuppbótina og komið út í mínus.
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi hjá Öryrkjabandalagi Íslands segir að Fjóla sé ekki ein um að geta ekki notað séreignasparnaðinn vegna skerðingarákvæða. Þó nokkrir hafi leitað vegna þessa til Öryrkjabandalagsins.
„Fólk getur verið í þeirri stöðu að eiga þennan séreignasparnað en geta ekki nýtt hann nema með þessum afleiðingum.“
Þarf að endurgreiða Tryggingastofnun
Um 7200 örorkulífeyrisþegar fá framfærsluuppbót. Af þeim fá um 450 hana óskerta. Allar skattskyldar tekjur eins og dánarbætur, sjúkrabætur, fjármagnstekjur, aðrar lífeyristekjur skerða framfærsluuppbótina krónu á móti krónu.
Og það gerðist í tilfelli Fjólu. Í ljós kom einnig að hún átti rétt á greiðslum frá lífeyrissjóðnum vegna örorkunnar og var gert að taka hann út. Við það missti hún framfærsluuppbótina - og þurfti að auki að greiða til baka það sem hún hafði fengið áður.
„Og þá þarf ég að borga til baka 725 þúsund sem að getur orðið hærra getur orðið lægra við uppgjörið núna í vor.“
„Því þetta finnst mér vera svo mikið brot á mannréttindum að maður er að reyna að spara og það bara gengur ekki upp ef þú ert öryrki.“
Vildi spara en skuldar meira
Og eina sem hún getur gert núna er að taka út séreignalífeyrissparnaðinn til að endurgreiða Tryggingastofnun framfærsluuppbótina - sem reyndar dugar ekki til því upp á vantar 115 þúsund krónur.
„Þegar ég ætlaði að taka þetta út á sínum tíma þá ætlaði ég að nota séreignalífeyrissparnaðinn til að borga niður lán en ég skulda meira í staðinn.“
Sigríður segir að þetta eigi við marga öryrkja. „Þetta hefur þær afleiðingar að fólk er fast í fátæktargildru. Það er alveg sama þó það reyni að afla sér tekna annarstaðar frá það er alltaf í sömu sporum.“