Fólki gefst kostur á að kaupa græðling á sölustöðum flugelda hjá Landsbjörg þegar salan hefst á morgun. Verkefnið heitir Skjótum rótum. Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Landsbjargar, segir töluvert um það að fólk kaupi flugelda til að styrkja björgunarsveitirnar en taki flugeldana ekki með sér. „Þetta er ákveðið svar við því,“ sagði Jón í viðtali í Morgunútvarpinu í morgun.
Jón Svanberg segir að björgunarsveitirnar leiti leiða til að finna flugelda sem menga minna og bendir á að breytingar hafi verið gerðar á samsetningu flugelda fyrir nokkrum árum og hættulegustu efnin fjarlægð úr þeim að miklu leyti.
Mikil svifryksmengun var um síðustu áramót. Jón Svanberg bendir á að reykmengun stafi af tertum en flugeldum því þær séu sprengdar niður við jörð. Óskar Reykdalsson, framkvæmdastjóri lækninga Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir í grein í Morgunblaðinu í dag að fjölmargir lungnasjúklingar leiti á bráðamóttöku og á heilsugæsluna um og eftir hver áramót vegna einkenna svifryksmengunar. Mengunin um áramót sé það mikil að frískt fólk geti fundið fyrir áhrifum á öndunarfærin. Í aðsendu bréfi þriggja sérfræðinga til Læknablaðsins kemur fram að fimmtán hafi leitað á bráðamóttöku Landspítala á nýársnótt vegna andþyngsla, eða helmingi fleiri en venjulegt sé. Þetta séu 50 prósentum fleiri en þeir sem leituðu aðhlynningar vegna meiðsla eftir flugelda.
Jón Svanberg segir að björgunarsveitirnar stóli að miklu leyti á flugeldasöluna í sinni fjáröflun. Í Morgunútvarpinu í morgun sagði hann frá því að nú geti þeir sem vilja sleppa flugeldum, en vilja styrkja björgunarsveitirnar, keypt græðling á flugeldasölum. Þeir verða gróðursettir í trjálundi fyrir utan Þorlákshöfn næsta sumar. „Við erum að fara af stað með verkefni sem heitir Skjótum rótum, sem Rakel Kristinsdóttir færði okkur, og er þannig að þú kaupir á flugeldasölustaðnum græðlinga, eða bréf fyrir græðling sem verður svo gróðursettur af Skógræktarfélagi Íslands næsta sumar. Það er nú bara þannig í flugeldasölunni, og reyndar í öðrum fjáröflunum hjá okkur líka, að það kemur fólk til okkar og til dæmis kaupir flugelda en vill ekki taka þá heldur réttir bara peninginn. Þetta er ákveðið svar við því líka.“
Töluvert sé um þetta. „Við sjáum það líka til dæmis í sölunni á Neyðarkallinum að það eru alveg dæmi þess að menn kaupa nokkra Neyðarkalla en vilja ekki taka kallinn með sér.“
Trén verða gróðursett í lundi sem hefur fengið nafnið Áramót. „Þetta er bara vonandi eitthvað sem er komið til að vera og skemmtileg viðbót við okkar fjáröflun.“
Hægt er að hlusta á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.