Segulpóllinn á norðurhveli jarðar er á fleygiferð og færist nú mjög hratt í átt til Rússlands. Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins, segir engan vita hvað valdi þessum óróa í segusviðinu og hvers vegna segulpóllinn hreyfist hraðar nú en hann hefur gert.
„Það veit enginn hvað er að gerast,“ segir Sævar Helgi. Rætt var við hann í Samfélaginu á Rás 1 í dag. Segulpóllinn hefur undanfarna öld eða svo verið hinum megin við Norðurpólinn sjálfann, á nokkru flakki um og yfir norðurströnd Kanada. Undanfarin ár hefur hann hins vegar færst um 50-60 kílómetra á ári. „Nú virðist hann bara vera á blússandi siglingu og enginn veit af hverju.“
Hreyfing á fljótandi járni í ytri kjarna jarðarinnar býr til rafstrauma, og rafstraumum fylgir segulsvið. Segulsviðið nær alla leið út fyrir jörðina og býr til eins konar verndarhjúp utan um plánetuna okkar.
Þetta er mjög mikilvægt fyrir okkur, segir Sævar Helgi. Þar sem segulsviðslínurnar koma saman er segulpóllinn. „Nú hafa vísindamenn verið mæla það að þetta er allt á fleygiferð og er allt að breytast. Bæði að veikjast og kannski styrkjast, en að mestu leyti veikjast. Það hefur reynst erfitt að segja fyrir um hvert þetta er að fara.“
Hægt er að hlusta viðtalið við Sævar Helga í spilaranum hér að ofan.