Björgvin Björgvinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að morðið á Hannesi Þór Helgasyni sé flóknara manndrápsmál en lögreglan eigi að venjast. Áfram er þó reynt að útiloka grunaða menn.
Engin þáttaskil hafa orðið í rannsókninni á morðinu í dag. Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn sagði á blaðamannafundi vegna málsins í dag að rannsóknin væri ekki á byrjunarreit þó að grunuðum mönnum sé sleppt úr haldi.Því fleiri sem lögreglan útiloki, því meira þrengist hringurinn um þann seka.
Morðvopnið er ekki fundið, en talið er að það sé oddhvass hnífur með tveggja sentimetra breiðu og fimmtán til tuttugu sentimetra löngu blaði.
Björgvin Björgvinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir málið óvenjulegt. Síðustu ár hafi morðmál verið með þeim hætti að mjög fljótlega hafi grunur beinst að ákveðnum aðila. Þetta manndráp sé að mörgu leyti öðruvísi og eigi sér dýpri rætur en lögreglan eigi að venjast.
Þetta vildi Björgvin ekki útskýra nánar. Friðrik Smári benti hins vegar á að það væru þó ekki nema fimm sólarhringar frá morðinu. Það sé í sjálfu sér ekki langur tími, í svo erfiðu máli. Það sé ekki einsdæmi að nokkrir dagar líði þar til sá seki næst.