Kínverskur vísindamaður segist hafa gert erfðabreytingu á börnum. Þetta hefur ekki verið gert áður og getur haft í för með sér ófyrirséðar aukaverkanir.

He Jiankui, kínverskur vísindamaður við Southern University of Science and Technology of China, segist hafa breytt erfðamengi sjö fósturvísa og nú sé kona ófrísk af einum þeirra. Ekki hafa komið fram sannanir um að þetta hafi í raun gerst fyrir utan hans eigin orð og samstarfsmanna. Markmið þeirra er að breyta erfðamengi barnanna þannig að þau verði ónæm fyrir HIV-smiti. 

Ótímabært og hættulegt

Þetta vekur óneitanlega upp margar spurningar. Vísindamenn hafa bent á að þetta teljist ekki nauðsynlegt, til séu lyf sem minnki líkur á HIV-smiti við fæðingu. Þá er spurt hvort þetta sé áhættunnar virði, nokkuð sem flestir vísindamenn eru sammála um að þetta sé ekki. „Enn liggur fyrir mikið verk til að sanna og staðfesta að aðgerðin sé í raun örugg. Ég segði að engin börn ættu að fæðast með notkun þessarar tækni nú. Það er of snemmt og ótímabært,“ sagði Dr. Kiran Musunuru við Háskólann í Pennsylvaníu. 

Í sama streng tekur George Daley, forseti heilbrigisvísindaeildar Harvard: „Svo eru stærri og knýjandi samfélagslegar spurningar; við hvaða aðstæður gæti þessu verið beitt? Hvað með eiginleika sem kalla mætti eflingu hæfileika? Ætti þessi tækni að geta ráðið hæð eða litarhafti barns?“