Segist axla fulla ábyrgð á atvikinu

30.07.2017 - 21:43
Mynd með færslu
 Mynd: Jonn Leffmann  -  Wikimedia Commons
Umboðsmaður skemmtiferðaskipsins Le Boreal segir misskilning hafa valdið því að hátt í tvö hundruð farþegar fóru í land á Hornströndum gær án tollskoðunar. Málið verður rannsakað af tollyfirvöldum á næstu dögum. 

Skipið, sem er franskt, kom frá Grænlandi í gær og er fyrsta skemmtiferðaskipið sem leggst að bryggju á Akranesi en þangað kom það snemma í morgun. Á leiðinni kom það hins vegar við á Vestfjörðum í leyfisleysi.

Um miðjan dag í gær fékk Landhelgisgæslan ábendingu um farþega skipsins í friðlandi Hornstranda. Þá hafði farþegum verið hleypt í land í Veiðileysufirði og á Hesteyri, án tollskoðunar. Samkvæmt lögum verða skip að fara í gegnum tollafgreiðslu áður en farþegar stíga á land. Landhelgisgæslan hafði í framhaldinu samband við áhöfn skipsins og skipaði þeim að halda förinni áfram.

Málið litið alvarlegum augum

Þegar skipið lagðist að bryggju á Akranesi í morgun fékk það loks tollskoðun. Fór afgreiðslan fram með eðlilegum hætti og voru skipstjóri eða aðrir í áhöfn ekki yfirheyrðir. Málið er þó litið alvarlegum augum og verður rannsakað á næstu dögum.

„Aðalmálið er það að viðkomandi skip brýtur þær reglur sem eru í gildi á landinu, bæði tollareglur og að mér skilst, reglur um náttúru Íslands,“ segir Kári Gunnlaugsson, yfirtollvörður tollaeftirlitsdeildar. 

Spurður hvers vegna ekki hafi verið tekin skýrsla af skipstjóranum við komuna í morgun segir Kári að tollvörðum hafi ekki verið kunnugt um viðkomuna á Hornströndum. Málinu er þó hvergi nærri lokið. „Við munum fara yfir þetta með þá umboðsaðila skipsins líka og við lítum þetta mjög alvarlegum augum að ekki sé farið eftir lögum og reglum,“ segir Kári. 

Misskilningur milli skipstjóra og umboðsmanns

Umboðsmaður skipsins segir að atvikið byggist á misskilningi. Oft séu undanþágur veittar fyrir því að tollskoðun sé gerð á öðrum stað en þar sem fyrst er komið í land. Skipstjórinn hafi haldið að slík undanþága hafi verið fyrir hendi en sú var ekki raunin. 

„Við vissum ekki að hann ætlaði að fara í land. Við héldum að hann ætlaði að sigla meðfram ströndinni og þetta væri bara sightseeing túr. Þannig að þetta er bara misskilningur milli umboðsmanns og skipsins,“ segir Jóhann Bogason, framkvæmdastjóri Gáru. 

Það er ykkar hlutverk að upplýsa skipstjórann um það hvert hann á að fara er það ekki?

„Jú þetta er alfarið á okkar ábyrgð. Skipstjórinn var í fullri og góðri trú um það að allt væri í lagi og hann mætti gera þetta,“

Var óskað eftir einhverjum upplýsingum frá ykkur af tollinum?

„Nei, en það verður farið yfir þetta á morgun,“ segir Jóhann. 

 

Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV