Segist aldrei hafa séð neitt jafn skringilegt

15.02.2017 - 12:07
Mynd með færslu
 Mynd: skjáskot  -  skjáskot
„Ég hef nú séð margt skringilegt á ferðalögum mínum en aldrei séð neinn fara út í sjóinn þarna. Ég hreinlega vissi ekki hvort hann ætlaði að fara drepa sig eða hvað,“ segir Teitur Þorkelsson leiðsögumaður sem tók myndband af karlmanni sem skellti sér allsnakinn til sunds í sjóinn við Djúpalónssand.

Þar eru miklar og háar öldur þó að þær hafi verið í minnsta lagi þennan daginn.

„Ég var á nokkurra daga ferðalagi með tvær stelpur með mér á vegum Extreme Iceland. Það var búið að vera svolítið rigningarlegt á Snæfellsnesinu en þarna byrjar allt í einu að birta til og verður alveg ægilega mikil fegurð. Þetta var mjög „magískt“ augnablik. Svo kemur þessi maður strunsandi niður í fjöru, plantar sér niður og fer að fara úr fötunum,“ segir Teitur sem var nokkuð hissa á uppátæki mannsins líkt og fleiri sem urðu vitni að því enda miklar og háar öldur í Djúpalónssandsfjöru og sjórinn kaldur. 

Því næst gekk maðurinn beint út í ægiháar öldurnar. „Hann ætlaði greinilega að fara að synda, hann fer þarna út í og er eiginlega laminn á land strax aftur. Ég sagði honum að þetta væri nú engin baðströnd en hann fór aftur út í,“ segir Teitur.

Maðurinn, sem er frá Slóvakíu að sögn Teits, var ekki einn á ferð heldur í hópi 5–6 erlendra ferðamanna sem myndaði svaðilför mannsins í sjóinn. „Það eru engar smáöldur þarna en þennan daginn voru þær kannski um 10 prósent af því sem þær geta verið þegar mest er. Þetta getur auðvitað verið hættulegt.“

Teitur segir manninn hafa gengið pollrólegan til baka eftir seinni ferðina í sjóinn, sest niður nakinn í fjörunni og fengið sér heitt te af brúsa meðan hann lét vindinn þurrka af sér mesta sjóinn.

Teitur er reyndur leiðsögumaður og ferðast mikið um landið. Hann segir að með auknum fjölda ferðamanna hér á landi þá sjái hann eðli mála samkvæmt ýmislegt. „Það eru fleiri ferðamenn, fleira fólk, þannig að maður sér meira af öllu. Meiri fjöldi þýðir meiri fjölbreytni af bæði góðu og slæmu.“

 

 

Mynd með færslu
Viktoría Hermannsdóttir
dagskrárgerðarmaður