Segir vopnabúrið öflugra en nokkru sinni

09.08.2017 - 12:50
epa06125007 US President Donald J. Trump (R) salutes a US Marine (L) as he boards Marine One to depart the South Lawn of the White House, in Washington, DC, USA, 04 August 2017. Trump travels to Bedminster, New Jersey, for a vacation.  EPA/MICHAEL
 Mynd: EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að fyrsta verk hans hafi verið að endurnýja og nútímavæða kjarnorkuvopnabúr Bandaríkjanna. Hann hótaði yfirvöldum í Norður-Kóreu öllu illu í gærkvöld. Norður-Kóreumenn brugðust við af hörku og sögðust viðbúnir að skjóta flugskeytum að Kyrrahafseyjunni Guam. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir að engin ógn steðji að íbúum þar en hann er nú á leið til eyjunnar.

Stjórnvöld í Kína vöruðu í morgun við aukinni spennu á Kóreuskaga og hafa, ásamt Þjóðverjum, hvatt ráðamenn í Bandaríkjunum og Norður-Kóreu til að sýna stillingu eftir gagnkvæmar hótanir um hernaðarárásir. Hörð orð Donalds Trumps Bandaríkjaforseta eiga sér fá fordæmi meðal forvera hans. 

Stórblaðið Washington Post greindi frá því í gær að stjórnvöld í Norður-Kóreu gætu búið til kjarnaodda sem eru nógu smáir til að rúmast í langdrægum flugskeytum. Viðbrögð Trumps eiga sér fá fordæmi meðal fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Þau þykja helst minna á ummæli Harrys Trumans, eftir að Bandaríkjaher hafði varpað kjarnorkusprengju á Japan árið 1945. 

Ráðamenn í Norður-Kóreu svöruðu fyrir sig nokkrum klukkutímum síðar með yfirlýsingu, sem lesin var upp í sjónvarpi þar í landi, um að herinn væri að skoða áætlun um að skjóta flugskeytum að Kyrrahafseynni Guam. Þar búa um 200 þúsund manns og Bandaríkjamenn eru með mikilvæga herstöð og langdrægar herflugvélar þar. Bandarísk yfirvöld á Guam segjast viðbúin að mæta því ef stjórnvöld í Norður-Kóreu gera alvöru úr hótun sinni. Rex Tillerson utanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði í morgun að engin yfirvofandi ógn steðjaði að íbúum á Guam og Trump Bandaríkjaforseti væri einfaldlega að nota orðalag sem væri auðskiljanlegt fyrir ráðamenn í Norður-Kóreu. Tillerson er nú á leið til Guam. 

Trump dró aðeins úr á samfélagsmiðlum í dag og sagðist vona að til þess kæmi ekki að hann þyrfti að beita því mikla valdi sem Bandaríkin búa yfir. 

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti um helgina að beita Norður-Kóreu hörðustu efnahagsþvingunum sem landið hefur verið beitt. Trump segir að fyrsta verk hans sem Bandaríkjaforseti hafi verið að endurnýja og nútímavæða kjarnorkuvopnabúr Bandaríkjanna. Það sé nú öflugra en nokkru sinni fyrr.