Verkföll starfsfólks á hótelum hafa góð áhrif á Airbnb og ólöglega starfsemi, að mati Kristófers Oliverssonar, formanns Félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu. Rætt var við hann í beinni útsendingu í sjónvarpsfréttum í kvöld. Efling hefur boðað verkfall ræstingarfólks á nokkrum hótelum á höfuðborgarsvæðinu 8. mars.

„Þetta hefur náttúrulega bara alveg svakaleg áhrif út á markaðinn. Ég hitti nú einn í dag sem var að segja að það hefði orðið mikill fjörkippur í airbnb-útleigunni núna af því að hún náttúrulega stöðvast ekki og ekki hjálpar það markmiðum verkalýðsfélaganna um að auka íbúðarhúsnæði ef að það sem þau gera leggst á sveif með svarta hagkerfinu,“ segir Kristófer. 

Hann gagnrýnir að verkalýðsforystan beini verkfallsvopninu að hótelum. Þau hafi sagst ætla að beina því að „breiðu bökunum“ í ferðaþjónustunni. Að hans mati eru „breiðu bökin“ Airbnb-íbúðirnar.