Opinber heimsókn Frank-Walters Steinmeier forseta Þýskalands hófst í morgun, en þetta er fyrsta opinbera heimsóknin, í forsetatíð Guðna Th. Jóhannessonar. Steinmeier segir Þjóðverja geta lært margt af Íslendingum í umhverfis- og loftslagsmálum.

Lúðrasveit Reykjavíkur lék þjóðsöngva ríkjanna á Bessastöðum í morgun en að því búnu heilsuðu forsetahjónin ráðherrum úr ríkisstjórn Íslands, embættismönnum og hátt í hundrað börnum af Álftanesi á öllum aldri, sem voru mjög spennt að taka á móti þessum erlendu gestum.  

Því næst héldu forsetarnir og fylgdarlið inn á Bessastaði, þar sem þeir ræddu hvernig mætti styrkja enn frekar gott samband ríkjanna. Þar og á blaðamannafundinum sem fylgdi voru loftslagsmál áberandi. Steinmeier sagði að Íslendingar hefðu staðið sig vel í umhverfismálum og orkuskiptum, án þess að valda of miklum breytingum á lífi fólks, og af því geti Þjóðverjar lært

Steinmeier var síðan viðstaddur opnun ljósmyndasýningar í Árbæjarsafni Heimat - tveir heimar, sem segir sögu þýskra kvenna sem sigldu til Íslands með Esjunni árið 1949, þegar seinni heimsstyrjöldinni var lokið, í leit að betra lífi. Konurnar settust hér að, stunduðu vinnu og margar hverjar síðar nám, eignuðust fjölskyldur og eiga þannig langflestar stóran hóp afkomenda.