Gæta verður jafnræðis hjá öllum föngum og að þeir hafi jafnan rétt til náms. Þetta segir fangelsismálastjóri. Dæmi eru um að stöndugir fangar hafi fengið almannatengslafyrirtæki til að hafa samband fangelsismálastjóra og fangelsismálastofnun.

Visir.is greindi frá því að í gær að til stæði af hálfu Landbúnaðarháskólans að halda reiðnámskeið fyrir stönduga fanga á Kvíabryggju. Námskeiðið var síðar blásið af. Fram kom í umfjöllun fréttavefsins að heildarkostnaður við námskeiðið væri 2,7 milljónir.

Páll Winkel, fangelsismálastjóri segir að grundvallaratriði fangelsismálastofnunar sé að allir fangar hafi jafnan rétt til náms. „Þetta námskeið kostaði 540 þúsund auk þess að hver nemandi átti að skaffa eitthvað „smálegt“. Þetta smálega, segir Páll, var „hross, reiðtygi og umhirða hrossanna í hálft ár.“ 

Páll segir að hann hafi í framhaldinu sent rektor Landbúnaðarháskólans fyrirspurn um hvort þetta væri þá eitthvað sem skólinn væri að skipuleggja fyrir alla fanga.  Í ljós kom að svo var ekki heldur átti námskeiðið eingöngu að fara fram við þetta tiltekna fangelsi.

Páll segir að þetta væri því ekki eitthvað sem Fangelsismálastofnun gæti staðið fyrir þrátt fyrir að stofnunin sé ákaflega hrifin af því að fangar komist almennt í nám. Námskeiðið var því blásið af. 

Páll segir að mjög lítill hópur fanga hafi aðgang að mörgum milljónum og mjög lítill hópur fanga noti almannatengslafyrirtæki til að hafa samband við sig og stofnunina. „Almannatengslafyrirtæki hafa haft samband við mig og beðið mig um að segja a,b og c eða segja ekki a,b eða c. Og mér blöskraði það hreinlega að ég varð bara orðlaus.“

Páll segir dæmi um að efnaðir fangar reyni að fá einhverja þjónustu eða afþreyingu inn í fangelsið sem öllu jafnan stendur ekki til boða. „Þetta er hárfín lína því ef þetta er eitthvað sem nær yfir allan fangahópinn þá er ég auðvitað feginn því þegar hægt er að bæta aðbúnaðinn.“ 

Páll segir að ef þetta snúi að einstökum föngum þá gangi það ekki.  Hann nefnir sem dæmi ný hagsmunasamtök sem nefnast Vildarvinir Kvíabryggju sem vilji gera vel við fanga á Kvíabryggju og er með fjármagn til að bæta aðstöðu þar - slíkt sé ekki í boði. „Ef þú ert valdamikill og vilt beita þér fyrir bættum aðbúnaði fanga þá ferðu til Alþingis og kemur því á fjárlög.“ Páll nefnir sem dæmi að menn hafi beðið um fleiri sjónvarpsstöðvar og allt yfir í jóganámskeið.