Segir skýrslumálið alvarleg mistök

10.01.2017 - 09:07
Þorsteinn Pálsson fyrrverandi forsætisráðherra og félagi í Viðreisn segir óskiljanlegt að skýrsla um aflandsfélög hafi ekki verið birt fyrir kosningar, það hafi verið alvarleg mistök. Hann fagnar áherslum um uppbyggingu heilbrigðiskerfisins í stjórnarsáttmála, en helsti veikleikinn sé Evrópumálin.

Þorsteinn var gestur Óðins Jónssonar á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Hann sagði að ákvörðun Bjarna Benediktssonar um að bíða með birtingu skýrslu um eignir Íslendinga á aflandsreikningum hafa verið gagnrýnda á fundi Viðreisnar í gærkvöldi.

„Þetta er mjög sérkennilegt mál og alveg óskiljanlegt að þessi skýrsla hafi ekki verið birt. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það, ég held að  menn bara deili ekki um það að þetta voru alvarleg mistök.“

Þorsteinn segir skýrsluna fjalla um mistök fráfarandi ríkisstjórnar og ætti ekki að flækjast fyrir stjórnarmyndun núna. Viðreisn samþykkti stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar í gærkvöldi. Hann fagnar nýjum áherslum þar.

„Höfuðáherslan í stjórnarsáttmálanum er á velferð og uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Það eru nokkur nýmæli að gera það að fyrsta áherslumáli í stjórnarsáttmála og mér fannst ánægjulegt að sjá það.“ 

Þorsteinn segir Ísland þurfa, eins og Norðurlöndin, að taka afstöðu til þess hvort fylgja eigi upplausnar- eða stöðugleikaöflunum í Evrópu. 

„Og það er kannski helsti veikleikinn í þessari stjórnarmyndun sem endurspeglast bara af því að það hefur ekki verið nein umræða um utanríkismálin, það er ekki tekið beint á þessu,“ segir Þorsteinn.

Hann bendir á að undir lok kjörtímabilsins séu þingmenn stjórnarflokkanna óbundnir ef fram kemur tillaga um hvort halda eigi áfram viðræðum við Evrópusambandið.

„Það kæmi mér ekki á óvart ef umræðan muni  í vaxandi mæli þróast þannig að menn takast á um það hvort við eigum að fylgja upplausnaröflunum eða stöðugleikaöflunum og ef kemur til þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu þá mun hún snúast um þá framtíðarsýn í Evrópu,“ segir Þorsteinn Pálsson félagi í Viðreisn og fyrrverandi forsætisráðherra.

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi