Segir Sjanghæ greiða samkvæmt kjarasamningum

05.09.2017 - 10:49
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Niðurstöður skoðunar Einingar Iðju á máli starfsmanna á veitingastaðnum Sjanghæ á Akureyri sýna að þeir fá greitt samkvæmt kjarasamningum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stéttarfélaginu.

Þar segir að í vinnustaðaeftirliti félagsins á veitingahúsið Sjanghæ þann 30. ágúst 2017 hafi venju samkvæmt verið óskað eftir ráðningarsamningum, launaseðlum, bankastaðfestingum og öðrum gögnum tengdum réttindum starfsfólks.

Life Iceland hafi orðið við þessu þann 31. ágúst. Óskað hafi verið eftir viðbótargögnum sem bárust þann 4. september.

„Búið er að yfirfara  þau gögn sem bárust félaginu um málefni starfsmanna veitingastaðarins Sjanghæ. Niðurstaða félagsins er að þær upplýsingar sem fram koma í gögnunum standast almenna kjarasamninga og launataxta sem gilda á veitingahúsum,“ segir í tilkynningu Einingar Iðju.

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar Iðju, segir að þar með sé málinu lokið af hálfu stéttarfélagsins. Þar sem ekkert óeðlilegt hafi fundist í öllum þessum gögnum sé frekari skoðunar ekki þörf að svo stöddu.

Það sama gildi samt um þennan vinnustað og marga fleiri að áfram verði fylgst með starfseminni. Einingu Iðju berist reglulega fjöldi ábendinga um kjör starfsfólks fyrirtækja og þeim ábendingum sé fylgt eftir.

Fréttin hefur verið uppfærð.