Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að Björt framtíð og Viðreisn hafi stillt Sjálfstæðisflokknum upp við vegg í stjórnarmyndunarviðræðum. Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, segir að í ýmsum málum sé engin óbrúanleg gjá á milli VG og Sjálfstæðisflokksins en í öðrum grundvallarmálum sé langt á milli.

Rétt að Katrín fái umboðið næst

Brynjar var í viðtali ásamt Steingrími í Morgunútvarpinu á Rás tvö í morgun. Brynjar sagði að Viðreisn og Björt framtíð hafi stillt Sjálfstæðisflokki upp við vegg.  „Ef ég skildi fréttirnar í gær rétt þá sagði Óttar Proppé að það þyrfti einhverjar breytingar í sjávarútvegi og landbúnaði og það þyrfti atkvæðagreiðslu um ESB. Og ef ég skildi hann rétt þá væru þetta ófrávíkjanlegar reglur," segir Brynjar.

„Það er vont þegar verið er að stilla upp við vegg með þessum hætti, segja að einhverjir hlutir séu ófrávíkjanlegir. Þá komast menn lítið af stað. Þannig að ég held að það sé ákveðið vandamál í þessu sem gerir þetta miklu erfiðara. Svo eru þeir búnir að tvinna sig saman. Þannig að ef Bjarni Benediktsson skilar þessu umboði í dag þá sé rétt að Katrín Jakobsdóttir fái umboðið næst og reyni að mynda þessa fimm flokka vinstri stjórn," segir Brynjar Níelsson.

Langt á milli Sjálfstæðisflokks og VG

Steingrímur J. Sigfússon þingmaður VG segir að erfitt geti reynst fyrir Sjálfstæðisflokk og Vinstri græna að ná saman. Eðlilegast sé að VG líti fyrst til flokkanna sem séu nær þeim í stefnu.  „Ég held að langbest sé að hver og einn skoði kosningaáherslur og stefnu flokkanna og beri þær saman. Jú, jú, það má örugglega nefna einhver málasvið þar sem engin óbrúanleg gjá er á milli okkar og sjálfstæðismanna. Auðvitað ekki. En í öðrum grundvallarmálum er auðvitað lengst á milli," segir Steingrímur.

„Við erum flokkur sem vill hafa sæmilega hreinar línur í pólitíkinni þannig að við sjáum ekki svona fyrirfram að það yrði auðvelt að brúa ágreininginn varðandi ýmis grundvallarmál. Eins og þegar kemur að jöfnuði, skattlagningu og ráðstöfun ríkisfjármála.  Þá er auðvitað ljóst að verulega langt er á milli," segir Steingrímur.