Talsmaður stærsta verkalýðsfélags Hollands segir hundruð vöruflutningabílstjóra vera fórnarlömb lögbrota skipafélagsins Samskipa í Hollandi. Málið hafi verið kært til lögreglu og brotin teygi sig til Belgíu og Svíþjóðar.  

Fjallað var um málið í hollenska sjónvarpinu í fyrradag. Þar er rætt við rúmenskan bílstjóra sem segir Samskip greiða honum 311 evrur á mánuði í grunnlaun, andvirði 35 þúsund króna og andvirði tæplega 6 þúsund króna þá daga sem þeir fá vinnu, en ekkert yfirvinnu- eða helgarálag. Til samanburðar séu mánaðarlaun hollenskra bílstjóra 236 þúsund krónur á mánuði auk yfirvinnu og helgarálags.

Í fréttinni er sýnt inn í vörugám merktan Samskipum þar sem vöruflutningabílstjórarnir eru sagðir þurfa að elda sér mat á gasprímus á meðan þeir bíða eftir vinnu.

Samskip hafna þessum ásökunum í yfirlýsingu. Fyrirtækið hafi enda engar spurnir haft af kærunni.

Edwin Atema, talsmaður stéttarfélagsins FNV, segir að það sé eðlilegt að Samskip viti ekki af kærunni, hún hafi verið send inn og nú hefjist rannsókn á sakargiftum. Verkalýðsfélagið telji að Samskip sé sekt um félagshagfræðilegan glæp.

Hann segir að á grundvelli upplýsingalaga hafi verkalýðsfélagið fengið skýrslu um málið frá samgönguyfirvöldum. Þar standi að Samskip brjóti lög og reglu. 

Edwin segir að talsmenn Samskipa í Hollandi neiti tilvist þessara skýrslna. Þó leiki grunur á að Samskip hafi stundað þessi félagslegu undirboð um langa hríð og að hundruð bílstjóra frá A-Evrópu aki fyrir félagið á smánarlaunum, ekki bara í Hollandi, heldur líka í Belgíu og Svíþjóð.

Hann segir að verkalýðshreyfingin í Svíþjóð hafi aðstoðað við rannsóknina á starfsemi Samskipa.

Samskip segir í yfirlýsingu sem félagið sendi frá sér í dag að það leggi áherslu á að bílstjórum sé greitt í samræmi við lög og séu undirverktakar uppvísir að öðru sé samningum við þá rift. Edwin segir að Samskip beri engu að síður ábyrgðina. Í Hollandi séu lög um keðjuábyrgð og því beri fyrirtækið lagalega ábyrgð.

Hann segir að fyrirtæki sem séu í samkeppni við Samskip hafi sent verkalýðsfélaginu stuðningsyfirlýsingu eftir umfjöllunina í hollenska sjónvarpinu. Þessi félög tapi markaðshlutdeild vegna vinnubragða Samskipa.

Barátta verkalýðsfélagsins snúist ekki um að klekkja á Samskipum, hún snúist um réttlát vinnuskilyrði fyrir verkafólk.