Efling hafði slegið af kröfum sínum áður en upp úr kjaraviðræðum slitnaði, að sögn Viðars Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra stéttafélagsins. Hann segir samninganefnd Eflingar þurfa að meta hvort enn frekar verði slegið af kröfunum.
„Það vilja auðvitað allir hér landa samningi en hann þarf að vera boðlegur fyrir fólk og fólkið á lægstu launum hér, á okkar félagssvæði, verður að geta lifað af laununum sínum,“ sagði Viðar í viðtali við Kristínu Sigurðardóttur, fréttamann, í beinni útsendingu í sjónvarpsfréttum.
Mikill meirihluti félagsmanna Eflingar, sem tóku þátt í atkvæðagreiðslu sem lauk á miðnætti, er hlynntur verkfallsaðgerðum. Þær hefjast að óbreyttu eftir átta daga. Viðar segir að niðurstaðan hafi ekki komið á óvart, sérstaklega ekki í ljós þess anda sem hann skynjaði hjá félagsmönnum í verkfalli á föstudag. „Að sama skapi er þetta sá baráttuvilji sem að við skynjum hjá okkar félagsmönnum í hvívetna, á vinnustaðafundum og í samskiptum við trúnaðarmenn og alls staðar.“
Þið hafið verið sökuð um að valda hamförum í ferðaþjónustunni. Hverju svarar þú því? „Ég tel að það sé íslenska auðstéttin sem að hafi valdið hamförum í íslensku efnahagslífi á síðustu áratugum. Ég tel ekki að verkalýðshreyfingin beri ábyrgð á því. Ég held að líf fólks á lægstu launum sem hefur þurft að búa við óðaverðbólgu í langstærsta einstaka útgjaldalið heimilanna sem er húsnæðiskostnaður á síðustu árum hafi verið að upplifa hægfara hamfarir í sínu lífi, því miður. Ég held að áhrifin af þessum verkfallsaðgerðum séu dropi í hafið í samanburði við það.“