Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, telur að ráðherrar þurfi reynda ráðgjafa til að vega upp á móti reynsluleysi sínu. Það sé meðal annars sá lærdómur sem draga megi af lekamálinu.
„Það hafa orðið ákveðin kynslóðaskipti varðandi þá sem hafa komið til starfa sem ráðherrar - og ekki bara hér á landi,“ segir Tryggvi. „Þarna kemur til starfa fólk sem hefur ekki það sem ég kalla mikla samfélagsreynslu. Það hefur ekki verulega reynslu af þingstörfum, ekki af þessum samskiptum að koma málum í gegnum stjórnsýsluna, það hefur oft á tíðum ekki mikla reynslu úr atvinnulífinu, það hefur kannski fyrst og fremst reynslu úr pólitískum störfum fyrir stjórnmálaflokkana.“
Tryggvi er gestur Viðtalsins eftir Tíufréttir í kvöld. Hann segir að búa verði ráðherrum betri aðstöðu til að rækja störf sín.
„Það eigi þá kost á því að fá með sér í þessi viðfangsefni einhverja aðstoðarmenn eða sérfræðinga, sem fylgja þeim,“ segir hann.
Tryggvi telur að slíkir aðstoðarmenn, sem væru trúnaðarmenn ráðherranna, gætu veitt þeim hlutlausa ráðgjöf í samræmi við góða stjórnsýsluhætti.
„Af því að við göngum út frá því að við ætlum að hafa lýðræði hér, við ætlum að hafa kjörna fulltrúa, og við ætlum að hafa þessa stjórnsýslu sem starfar í þágu okkar, þá verðum við einhvern veginn að finna leiðir til að hún geti gengið, og til að þessir kjörnu fulltrúar hafi sem best tækifæri til að sinna þessum störfum,“ segir Tryggvi.